154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:49]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem ekki hér upp til að veita andsvar, fremur kannski til að árétta, af því að þessi umræða hefur staðið í nokkurn tíma, það sem kom fram hér fyrr í dag, vegna þess að hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir nefndi mikilvægi þverpólitísks samtals sem hefur verið gott hér í dag, að ég hefði hug á því í framhaldsvinnunni, þar sem ætlunin er að nýta krafta þessara fræðimanna áfram, að eiga samtal við velferðarnefnd Alþingis þar sem ég sé fyrir mér að við horfum á þessa hópa sem eru tilteknir í skýrslunni; einstæða foreldra, barnafjölskyldur, námsmenn, því að þar eru ákveðin vafaatriði sem þarf að skoða betur, öryrkja og innflytjendur. Það sem kemur í ljós í þessari skýrslu, fyrir utan efnisinnihaldið, er að við eigum mikið af gögnum, minna af upplýsingum og enn minna af greiningum. Forsenda þess að taka ákvarðanir þar sem við nýtum krafta okkar sem best er auðvitað að fara lengra í greiningum, dýpra í gögnum. Þótt það hljómi ekki spennandi inn í stjórnmálaumræðu er það samt það sem skilar mestum árangri.

Af því að hv. þingmaður gerði sérstaklega að umtalsefni stöðu barna og hvernig fjárfesting gegn fátækt barna sé sú fjárfesting sem skili mestu til langs tíma þá ætla ég bara að taka undir með hv. þingmanni. Ég tel að það sé mjög skynsamleg áhersla en auðvitað er þar ákveðin skörun, þ.e. við hópa einstæðra foreldra og við hópa innflytjenda.

Þetta held ég að sé verkefnið, hvernig við getum forgangsraðað þannig að við séum að vinna að langtímamarkmiðum sem er auðvitað alltaf flókið í stjórnmálum þar sem við þurfum alltaf að skila árangri helst innan kjörtímabils. Þess vegna legg ég svo mikla áherslu á að við getum átt gefandi þverpólitískt samtal og ég held að þessi umræða í dag gefa góð fyrirheit um það.