154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:57]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir andsvarið. Það er gott að það séu til vísar en þeir þurfa náttúrlega að vera samanburðarhæfir við önnur lönd og vera þá saman teknir í einu skjali. Það er mikilvægt að við séum með raunhæft plagg um að berjast kerfisbundið gegn fátækt barna og fátækt hjá fjölskyldum, ekki síst barnafjölskyldum.

Varðandi hin Norðurlöndin, og ég þekki aðeins til í einu þeirra, Noregi, get ég sagt það að mér finnst íslenskt samfélag miklu harðara samfélag. Það er miklu meiri óánægja með stjórnvöld, miklu harðari lífsbarátta hér en t.d. í Noregi. Það er mikið til út af því, held ég, að það er hluti af fólkinu hérna, hluti af íbúum Íslands sem býr við fátækt og óréttlæti. Við fórum í kringum landið eða á Austfirði, Flokkur fólksins, og hittum fólk. Ég gleymi því ekki að ég hitti á Vopnafirði 88 ára gamla konu, jafn gamla móður minni, sem hélt þessa roknu ræðu yfir okkur nokkrum sinnum um það óréttlæti sem hún hefur orðið fyrir sem ellilífeyrisþegi, eins og þegar hún fékk bakreikning upp á 400.000 kr. út af skerðingunum af því að hún hafði aflað sér tekna á árinu á undan. Það er þetta óréttlæti sem er í kerfinu sem venjulegt fólk finnur fyrir, óréttlæti t.d. í skerðingarkerfunum hjá öryrkjum og öldruðum. Þetta er ekki á hinum Norðurlöndunum og ég tel að við séum langt að baki hinum Norðurlöndunum þó svo að við séum undir Svíum hvað varðar fátækt barna. Ég held að við eigum mjög mikið verk að vinna og það þarf að gera það líka í almannatryggingalögunum og líka einblína á fátækt almennt.

Það er rétt sem forsætisráðherra kom inn á að þetta er mismunandi eftir landshlutum og ég tel að landsbyggðin hafi setið að mörgu leyti eftir og þá ekki síst hvað varðar innviði og aðgang að auðlindum þjóðarinnar, hefur sogað til sín öll auðæfin eins og t.d. í ríkjum eins og Chíle þar sem allur peningurinn (Forseti hringir.) er í Santíagó en svo eru hin héruðin fátæk. Við megum ekki hafa það þannig. Það verður að byggja allt landið (Forseti hringir.) og það á ekki að vera fátækt neins staðar á landinu.