154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[18:03]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Vissulega heyrði ég þessa athugasemd hv. þingmanns sem snerist kannski meira um það sem ekki er fjallað sérstaklega um í skýrslunni, en þar er auðvitað verið að reyna að ná utan um heildartekjur þar sem er leitast við að leiðrétta fyrir skerðingunum sem hv. þingmaður vísar til. Ég gat hins vegar um það hér í minni upphafsræðu að það eru ákveðnir hlutir sem þarf að skoða betur, ég nefndi þar t.d. námsmenn og ákveðna óvissu um þeirra stöðu út frá þeirra búsetu og hvaðan þeir hafa tekjur. Það kann að vera að það þurfi að rýna betur í áhrif skerðinganna sem hv. þingmaður nefnir. Þó er gert ráð fyrir þeim inni í þessum tekjum.

Síðan er það annað mál auðvitað hvernig kerfið sjálft er byggt upp sem við hv. þingmaður höfum rætt allnokkrum sinnum hér í þessum sal sem snýst auðvitað um þann ófyrirsjáanleika sem fólk býr við sem má búa við það að vera krafið um endurgreiðslu eftir á, sem er auðvitað mjög erfið staða.