138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

námskeið fyrir hreindýraleiðsögumenn.

596. mál
[13:35]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Sem nýliða á þingi kom það mér mjög spánskt fyrir sjónir að sjá þetta mál á dagskrá á næstsíðasta degi þingsins en fékk síðan skýringu á því sem er góð og gild, þ.e. að verið sé að safna saman öllum fyrirspurnum. Hins vegar er ljóst að hreindýraveiðar og atvinnuvegur í kringum þær skipta Austlendinga mjög miklu máli. En það sem kom mér á óvart í máli hæstv. umhverfisráðherra er að Umhverfisstofnun skuli bera ábyrgð á leiðsögunámi fyrir hreindýraveiðimenn vegna þess að mér þætti þetta mál miklu betur komið hjá þeim sem standa því næst, þ.e. hjá Fræðsluneti Austurlands. Ég mundi leggja til að það yrði skoðað hvort ekki væri nær að Fræðslunetið tæki þetta að sér. Síðan var á þjóðfundi sem haldinn var á Austurlandi í lok janúar sl. alveg ljóst að Austlendingar eða Austfirðingar á sóknarsvæði Austursvæðis telja þessa atvinnugrein geta skapað fjöldamörg störf og hliðarstörf og ýmiss konar þjónustu í kringum þessa grein.