139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég leggja áherslu á að hér er gætt meðalhófs. Hitt er svo staðreynd, og þar er ég ekki sammála hv. þingmanni, það hefur engin sátt verið um þetta kerfi og einstaka þætti þess, m.a. óöryggi byggðanna, samþjöppun aflaheimilda á einstakar útgerðir og síðan hvernig með þær hefur verið farið. Það er engin sátt um það. Það kom ekki hvað síst í ljós við síðustu alþingiskosningar þar sem þeir flokkar sem lögðu mikla áherslu á þessar breytingar fengu til þess afl að fylgja þeim eftir.

Ef við lítum á skoðanakannanir, þó að þær eigi ekki endilega að ráða ferð í málum og afstöðu manna, hefur það ítrekað sýnt sig í skoðanakönnunum meðal þjóðarinnar að hún vill afdráttarlausar breytingar. (Forseti hringir.) Að sjálfsögðu verður þess gætt að sjávarútvegurinn verði áfram rekstrarlega hagkvæmur og öruggur í þeim efnum. (Forseti hringir.) En við verðum að taka tillit til þess sem hér er númer eitt, að tryggja að þjóðin fari með ótvíræðan (Forseti hringir.) eignarrétt og ráðstöfunarrétt á auðlindinni.