139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:21]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er með þessa grein í frumvarpinu eins og svo margar aðrar að hæstv. ráðherra lætur það í vald Alþingis, að sjálfsögðu, sem eðlilegt er að greiði úr því.

Ég vil bara minna hæstv. ráðherra á eitt, þegar þetta var samþykkt út úr stjórnarflokkunum komu mjög misvísandi skilaboð þaðan. Margir stjórnarþingmenn segjast hafa gert mjög margar athugasemdir við frumvarpið, þar á meðal þá sem hér um ræðir. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra nokkurs sem hann svaraði ekki mjög skýrt áðan: Hvernig datt hæstv. sjávarútvegsráðherra í hug að mæla fyrir þessu frumvarpi áður en búið var að gera hagfræðilega úttekt á því? Það kom fram í hagfræðilegri úttekt að hann leggur til að sumir landshlutar, sumar byggðir, fari í eyði nái þetta frumvarp fram að ganga. Það er akkúrat það sem hann leggur hér til, áttar hæstv. ráðherra sig ekki á því? Hvers vegna mælir hæstv. ráðherra fyrir þessu frumvarpi áður en fyrir liggur hagfræðileg úttekt á málinu? Það er mér algjörlega ofviða að skilja (Forseti hringir.) hvers vegna það er gert.