139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég tel ástæðu til að ítreka þá beiðni sem hefur komið fram um að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði viðstaddur þessa umræðu og hæstv. forsætisráðherra líka. (Sjútvrh.: Það er ekki …) Ástæðan fyrir því er meðal annars sú að í andsvari hæstv. ráðherra við hv. þm. Ólöfu Nordal áðan sagði hæstv. ráðherra að hagfræðilega úttektin, sem enn á eftir að vinna þó að búið sé að leggja frumvarpið fram, mundi ekki breyta meginniðurstöðu málsins, meginatriðin yrðu áfram eins hvað sem liði hagfræðilegu úttektinni.

Þetta hefði ég að sjálfsögðu viljað spyrja hæstv. ráðherra út í en vegna þess að það var ekki svigrúm til þess, það var búið að fylla kvótann hvað andsvör varðaði, vildi ég gjarnan að hæstv. ráðherra kæmi í andsvar við mig til að svara áhyggjum mínum af þessu. Það er verulegt áhyggjuefni að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lýsi því hér yfir að hagfræðilegar afleiðingar frumvarpa (Forseti hringir.) skipti engu máli.