139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[17:14]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég sit í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og við erum búin að funda nokkrum sinnum í nefndinni um frumvarpið sem við lukum við aðfaranótt fimmtudagsins og velta fyrir okkur málsmeðferð þess. Nú eru, að ég held, þrír virkir dagar þangað til áætluð lok þingsins eru og enn er talað um að mál fái eðlilegan þinglegan farveg og meðferð.

Mig langar að beina því til forseta að þetta er ekki líklegt til þess að við getum vandað vinnubrögð og farið vel yfir hlutina og fengið umsagnir. Þetta er alveg svakaleg flýtimeðferð á því mikilvægu máli sem um ræðir.

Við það bætist að við ræðum hér í dag mun stærri breytingar á sjávarútvegskerfinu án þess að vita hver tilgangurinn er. Ég held að ég verði jafnframt að beina því til forseta að skoða það hvort við eigum ekki að ljúka þessari umræðu fyrr en seinna svo að menn geti (Forseti hringir.) farið til hinna víðfeðmu kjördæma sinna og heimsótt sitt fólk og tekið þátt (Forseti hringir.) í hátíðarhöldum sjómannadags sem víðast um land.