144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þingið mun ekki fjalla um niðurstöðu núverandi verkefnisstjórnar fyrr en eftir 12–16 mánuði. 12–16 mánuðir, 16–18 mánuðir. Það eru auðvitað mjög sterk rök fyrir þá sem vilja halda áfram á þessum vettvangi eins og staðan er að orkufyrirtækin okkar geta ekki svarað kalli þeirra fyrirtækja sem vilja fjárfesta hér, hvort sem það varðar stækkun í gagnaverum, ný gagnaver eða þær verksmiðjur sem fyrirhugað er að reisa uppi á Grundartanga og í Helguvík. Auðvitað er málið þá knýjandi.

Ég virði sjónarmið hv. þingmanns sem vill ekki virkja meira, en ég bið hann þá að virða það sjónarmið mitt að vilja ganga lengra í þessu og m.a. að taka þessa virkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár. Ég skora á hv. þingmann að við leggjum það lýðræðislega í dóm þingsins hvort menn telji að búið sé að meta þessa kosti nægilega mikið. Ef hv. þingmaður telur að það sé ekki búið er hann ósammála öllum þeim sérfræðingum sem ég hef heyrt í, eða flestum getum við sagt, sem segja að áhrifin á laxastofninn séu mjög óljós. Það er bara allt annað en haldið er fram af okkar bestu sérfræðingum á þessum vettvangi, þ.e. að það séu mikil umhverfisáhrif. Þetta eru þeir virkjunarkostir sem skoruðu hvað lægst í umhverfisáhrifum í vinnu verkefnisstjórnar við ramma 2. Var þá alveg sérstaklega tekið til þess hversu hagkvæmir þeir væru í umhverfislegu tilliti. Ef þeir standast ekki þá einkunn munum við væntanlega ekki virkja vatnsafl neins staðar annars staðar á landinu, alla vega ekki með minni umhverfisáhrifum. (Gripið fram í.) Það eru 12 sekúndur eftir, hv. þingmaður. Ég tel því að þetta séu rök sem menn þurfa að fara yfir og menn geta haft mismunandi skoðanir á, en það er náttúrlega eðlilegt að lýðræðislegur meiri hluti eigi að ráða þeirri leið sem farin er. Við munum draga breytingartillögu okkar (Forseti hringir.) til baka eins og samið hefur verið um við þessi þinglok. Það finnst mér ansi biturt. Ef (Forseti hringir.) hv. þingmaður vill líkja því við einhvern greipdrykk má hann gera það mín vegna. Hann (Forseti hringir.) sér hinar kómísku hliðar á mörgum málum, en fyrir mér er þetta mjög alvarlegt mál.