150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:45]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef af því áhyggjur að hagsmunir skattgreiðenda séu fyrir borð bornir einmitt með þeirri ákvörðun að sölutryggja útboðið og einmitt með þeirri ákvörðun að veita rekstrarlánalínu frá ríkisbönkunum tveimur upp á alla þessa milljarða áður en til ríkisábyrgðarinnar kemur. Ríkisábyrgðin er frá mínum bæjardyrum séð, eins og ég hef kynnt mér málið, algjört aukaatriði í aðkomu ríkisins að flugfélaginu. Það kemur á óvart að Samfylkingin, og þar með hv. þingmaður, hafi ekki lagst í neina greiningu á því sem hún telur svo mikilvægt að greina, þ.e. á hagsmunum skattgreiðenda og ríkisins í þessu efni. En í framsögu sinni vék hv. þingmaður ekki einu einasta orði að þeim miklu hagsmunum sem hent hefur verið í fangið á skattgreiðendum, í gegnum ríkisbankana tvo, með sölutryggingunni. Ég vil líka spyrja hv. þingmann, af því að hann nefnir að félagið sé kerfislega mikilvægt af því að það sé svo stórt: Er Icelandair svo stórt í dag? Er það svo stórt í dag? Er það ekki unnvörpum að fella niður ferðir? Hversu stórt er félagið og hversu mikil ákvörðunarástæða (Forseti hringir.) ætti það að vera að veita því aðstoð á meðan landinu er lokað, á sama tíma og ríkisvaldið sjálft hefur kippt (Forseti hringir.) fótunum undan rekstri þessa fyrirtækis?