150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:46]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talar um að Samfylkingin eigi að greina málið. Ég minni hv. þingmann á að það er flokkur hv. þingmanns sem kemur með þetta frumvarp hér inn. Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem fer með hlutabréfið í ríkisbönkunum. Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem stendur að öllum þessum aðstoðaraðgerðum sem hv. þingmaður er óbeint að gagnrýna. (Gripið fram í.) Hvar eru ykkar greiningar? Þetta er þinn flokkur. Samfylkingin er ekki í ríkisstjórn. Við fengum fjóra daga til að greina þetta mál. (SÁA: Hvaða skoðun hafið þið?) Við viljum aðstoða Icelandair því að við teljum það kostnaðarsamara að láta það falla. Mér heyrist að hv. þm. Sigríður Á. Andersen styðji ekki málið ef ég skil hennar málflutning rétt. Við viljum aðstoða Icelandair með þeim hætti að starfsemin sé tryggð. En af hverju getum við ekki verið samferða um að auka tryggingaverndina? Af hverju er það harðbannað? Ég skil það ekki. En ég held að hv. þingmaður ætti svo sannarlega að taka það upp á þingflokksfundi hvernig hér er staðið að málum. Mér fannst gagnrýni hv. þingmanns fyrst og fremst beinast að (Forseti hringir.) formanni hennar eigin flokks og skorti á greiningum (Forseti hringir.) og hugsanlega of mikilli áhættutöku ríkisins í öllum þessum aðgerðum sem flokkur hennar er alltaf að monta sig af.

(Forseti (BHar): Forseti minnir hv. þingmenn á það að þegar fjórir þingmenn veita andsvar er eingöngu 1 mín. til umráða í hvort skipti fyrir sig. )