150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:48]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni framsögu hans. Mig langar að koma inn á atriði sem er 7. liður í minnihlutaáliti hv. þingmanns. Þar segir:

„Að lokum telur 1. minni hluti að heppilegra hefði verið ef stuðst hefði verið við lög um ríkisábyrgð í þessu máli þar sem Ríkisábyrgðasjóður hefði farið yfir málið frá upphafi til enda.“

Á bls. 5 í nefndaráliti meiri hluta er farið í allítarlegu máli yfir þetta tiltekna atriði og ástæður þess að gerð er tillaga um að víkja í heild frá ákvæðum laga um ríkisábyrgðir. Þar segir, með leyfi forseta:

„Skilyrði laganna séu hins vegar ekki vel sniðin að sérstökum stuðningi þegar um umfangsmikinn markaðsbrest er að ræða, líkt og nú er á flugmarkaði …“

Áfram segir:

„… myndu þau úrræði ekki ná markmiðum sínum.“ — Þau sem hér er verið að færa í lög.

Og áfram, með leyfi forseta, ég er að klára: (Forseti hringir.)

„Gjöldin, reiknuð út á grundvelli laganna, myndu einfaldlega ríða viðkomandi fyrirtækjum að fullu.“

Mig langar að spyrja hv. þingmann: (Forseti hringir.) Telur hann þessi sjónarmið meiri hluta nefndarinnar ekki (Forseti hringir.) réttmæt og hvers vegna leggur hv. þingmaður svo mikla áherslu á lið nr. 7?