150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:56]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svarið, en mér fannst hv. þingmaður þó ekki svara spurningu minni beint varðandi áhrifin á fyrirhugað hlutafjárútboð. Þegar við tölum um að takmarka áhættu felst það í leiðinni og hér er varfærnasta leiðin farin. Mér finnst það gleymast, bæði í ræðu hv. þingmanns og endurspeglast svo í þessu svari, en það er það lykilmarkmið að félagið bjargi sér hreinlega sjálft og þessi ábyrgð sé til þrautavara, að fjárfestar komi að félaginu og það reyni ekki á þessa ábyrgð. Það er óskastaða, síðast inn, fyrst út. Í því felst varfærni og takmörkun áhættunnar. Því fæ ég ekki séð að svona hugmyndir hjálpi nokkurn skapaðan hlut.