150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[20:19]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ekki sjálfgefið, það er stórt mál að veita ríkisábyrgð á láni fyrir einkafyrirtæki á markaði. Þess vegna höfum við nálgast það með varfærnislegum hætti. En af hverju erum við stödd þarna? Það er 80% fækkun ferðalaga í flugi í heiminum. Í Evrópu er allt að 97% minna flug. Öll flugfélög í heiminum, ekki síst í okkar heimshluta, búa nú við það að hafa sótt sér stuðning til ríkja. Í sumum tilvikum voru flugfélögin þegar að einhverju leyti í eigu ríkjanna sem þar með voru skuldbundin til að setja miklu meira fé og taka miklu meiri áhættu. Við vorum ekki í þeirri stöðu vegna þess að félagið var með sterkari stöðu framan af. Við höfum getað sett fram kröfur á félagið um að það uppfylli ákveðin skilyrði (Forseti hringir.) áður en kemur að því að við veitum ríkisábyrgð á lán, að því gefnu að hlutafjárútboðið gangi eftir. (Forseti hringir.) Farin er eins varfærnisleg leið og hægt er til að lágmarka áhættu varðandi skattfé almennings. (JÞÓ: Nei.) (Gripið fram í: Jú.)