138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

gjald fyrir ónýttar yfirdráttarheimildir.

471. mál
[13:18]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég get byrjað á því að flytja góðar fréttir því að könnun meðal þriggja stærstu viðskiptabankanna sem hér starfa hefur leitt í ljós að þeir eru annaðhvort hættir að taka það gjald sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson gerir að umtalsefni eða hafa aldrei innheimt það. Þannig hætti Landsbankinn með heimildargjald á reikningum einstaklinga sumarið 2009 og það sama átti við um flesta reikninga fyrir fyrirtæki. Innheimtunni var svo alfarið hætt nokkrum dögum eftir að hv. þingmaður lagði fram fyrirspurnina, eða 21. mars þessa árs.

Það sama á við um Arion banka, sem ákvað að innheimta ekki heimildargjald af einstaklingum frá og með 21. apríl í ár, og Íslandsbanki innheimti ekki heimildargjald af einstaklingum.

Við þetta má bæta að ef ráðherra hyggst beita sér með þeim hætti að hann geri fjármálastofnunum óheimilt að innheimta slíkt gjald kallar það á lagabreytingar því að hvergi er að finna ákvæði í gildandi lögum um starfsemi fjármálafyrirtækja sem kveða á um að ekki megi innheimta fyrir tiltekna þjónustu eða hvernig það skuli gert. Aðeins er miðað við að starfsemi fjármálafyrirtækja skuli vera heilbrigð og eðlileg, eins og það er kallað í lögunum, og í samræmi við það sem á ensku kallast „good practice“ sem þýða má á íslensku sem góðar viðskiptavenjur eða heilbrigðar viðskiptavenjur.

Við þetta er því að bæta að yfirdráttarheimildir, hvort heldur er einstaklinga eða fyrirtækja, eru öðru nafni lánalínur. Það er í eðli sínu ekki endilega óeðlilegt að lánveitandi taki gjald fyrir lánalínur. Það tíðkast víða um heim, hvort heldur er í viðskiptum við fyrirtæki, við banka, í viðskiptum banka við aðra banka, eða jafnvel viðskiptum seðlabanka eða ríkisvalds við banka. Íslenska ríkið eða Seðlabankinn greiðir t.d. í einhverjum tilfellum gjald fyrir lánalínur þannig að þetta eru alþekktir viðskiptahættir. Þeir eru að nokkru marki skiljanlegir í ljósi þess að lánveitandi sem opnað hefur lánalínu þarf að liggja með talsvert laust fé til að vera viðbúinn því að dregið verði á lánalínuna fyrirvaralaust eða fyrirvaralítið og því fylgir alla jafna meiri kostnaður að vera með laust fé en bundið.

Hvort þessar almennu staðreyndir réttlæti að innlendar fjármálastofnanir innheimti heimildargjald af reikningum einstaklinga vil ég hins vegar ekki fullyrða. Það hlýtur að fara eftir efnum og ástæðum hverju sinni. Almennt ætti samkeppni um viðskiptavini að hafa áhrif á þessa gjaldtöku eins og aðra og líklega má lýsa því sem gerðist nú í vor, þegar þessari gjaldheimtu var hætt, á þann veg að þar hafi allir bankarnir viljað laða til sín viðskiptavini eða fæla þá ekki frá sér með því að falla frá innheimtu heimildargjalds.

Ég vil jafnframt taka undir það með hv. þingmanni að íslenskir einstaklingar og fyrirtæki greiða vitaskuld mjög háa vexti nú um stundir og yfirdráttarvextir eru einhverjir hæstu vextir sem í boði eru. Það er því ansi blóðugt að tryggja sér lánalínu sem teknir verða mjög háir vextir af ef dregið verður á hana og þurfa að auki að borga fyrir þau forréttindi að hafa lánalínuna. Sem betur fer eru einstaklingar nú lausir við þá gjaldtöku en ég þori ekki að fullyrða að svo verði um aldur og ævi. Ef menn vilja bregðast við því að bankarnir vilji innheimta heimildargjald einhvern tímann í framtíðinni þarf atbeina Alþingis því að ráðherra hefur, eftir því sem okkur í ráðuneytinu sýnist, ekki heimild til þess að grípa þar inn í á grundvelli gildandi laga.