138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

lækkun launa í heilbrigðiskerfinu.

606. mál
[13:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir þessa fyrirspurn. Hann spyr fyrst hvaða fyrirætlanir séu uppi um að lækka laun lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks.

Því er til að svara, frú forseti, að heilbrigðisráðherra hefur gefið skýr fyrirmæli til forstjóra heilbrigðisstofnana að draga úr rekstrarkostnaði stofnananna með því m.a. að lækka hæstu laun. Leiðarljósin hafa verið skýr í því aðlögunarferli sem við erum í til að ná endum saman í fjárlögum ríkisins, að verja lægstu launin og lækka þau hæstu í því skyni að vernda störfin. Þetta er þríþætt verkefni sem er lagt fyrir forstjórana.

Í bréfum sem rekja má allt aftur til ársins 2009, nánar tiltekið 26. júní, og fram á þetta ár er ítrekað að við lækkun launa skuli kjarajöfnun höfð að leiðarljósi og að laun þeirra sem mest bera úr býtum skuli lækkuð hlutfallslega meira en þeirra sem lægri laun hafa. Jafnframt að endurskoða skuli allar greiðslur umfram kjarasamninga, m.a. er bent á að leggja skuli af fasta yfirvinnu og endurskoða álagsgreiðslur vegna vaxta, leita samstarfs við aðrar stofnanir um hagræðingu í rekstri, hætta akstursgreiðslum o.s.frv. Sem sagt, áherslan á kjarajöfnun hefur verið í fyrirrúmi þegar til kjaraskerðingar hefur þurft að koma. Þessi leiðarljós hafa ítrekað verið kynnt öllum forstöðumönnum heilbrigðisstofnana með bréfum eins og ég sagði áðan en einnig hefur sú sem hér stendur haldið fjölmarga fundi með starfsmönnum, með forstjórum og með formönnum og stjórnum þeirra fagfélaga sem eru í heilbrigðisstétt á Íslandi.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður hvernig ráðherra hyggist ná fram þessum ásetningi. Ég hef nú lýst þeim leiðbeiningum sem hafa verið gefnar og vil þess vegna snúa mér aðeins að eftirfylgni, því að það er ljóst að eitt af verkefnum heilbrigðisráðuneytisins núna er að fylgjast með því hvernig til hefur tekist m.a. með þessa launalækkun. Niðurstaðan er sú samkvæmt nýjum upplýsingum sem ég hef fengið að laun allra heilbrigðisstétta hafa nú þegar lækkað en það verður því miður að segjast að lækkun hæstu launa hefur orðið minni sums staðar en vænst var. Það eru því enn tækifæri til lækkunar og eins gott því að fyrirséð er að áframhaldandi samdráttur verður í útgjöldum í ár og næstu árin. Ég hef nefnt það áður að eftir að bönkunum sleppti hefur mestur launamunur á landinu verið í — mætti ég kannski biðja um hljóð í hliðarsal, hæstv. forseti. — Ég hef nefnt það áður, frú forseti, að það er tækifæri til launajöfnunar sérstaklega hjá heilbrigðisstéttum þar sem launamunur hefur verið hvað mestur og er því miður enn þá í landinu að bönkunum slepptum en þar var launamunurinn auðvitað gríðarlegur eins og allir þekkja. Frá síðasta ársfjórðungi ársins 2008 og fram til fyrsta ársfjórðungs á þessu ári, 2010, hafa meðallaun lækna lækkað um 6,9% en stöðugildum þeirra hefur fækkað um 6,2%. Meðallaun hjúkrunarfræðinga hafa lækkað um 9,7% á sama tíma og stöðugildum þeirra fækkað um 2,5%. Meðallaun ljósmæðra hafa lækkað um 8,4% en því miður hef ég ekki upplýsingar um breytingar á fjölda stöðugilda í þeirri stétt. En á þessu tímabili hafa meðallaun sjúkraliða lækkað um 10,3% og stöðugildum fækkað um 7,5%. Á þessu mega hv. þingmenn sjá hver þróunin hefur verið að lækkunin hefur verið mest hjá sjúkraliðum en þar hefur fækkun starfa einnig verið hvað mest.

Spurt er hvort lagt hafi verið mat á áhrif slíkra launalækkana. Því er til að svara að það hefur ekki verið gert en það er ljóst að læknar og hjúkrunarfræðingar hafa í auknum mæli leitað út fyrir landsteinana í launalausum leyfum og hefur orðið vart áhuga á því að taka frí í stað vaktagreiðslna og nota tímann til starfa annars staðar bæði hérlendis og erlendis.

Ég vona að þetta svari hv. fyrirspyrjanda að nokkru leyti en ég gæti þá bætt um betur í síðara svari mínu.