139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:08]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ekki var mikill sannfæringarkraftur í máli hæstv. sjávarútvegsráðherra þegar hann flutti framsöguræðu sína um þetta mál.

Mig langar að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra, í ljósi þess að hann talaði um að nauðsynlegt væri að gera ítarlega athugun á áhrifum frumvarpsins, hvernig í ósköpunum honum datt í hug að koma með frumvarp sem vegur að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar án þess að hafa gert á því athugun hvaða afleiðingar það hefði. Hann boðar að það þurfi að gera einhvern tímann seinna. Heldur hæstv. sjávarútvegsráðherra að framlagning svona frumvarps hafi engin áhrif á þá atvinnugrein sem um ræðir?

Og hvað á það að þýða að leggja fram frumvarp í því skötulíki sem þetta frumvarp er? Það eru ekki einungis efnahagslegu áhrifin heldur hefur komið fram og kemur fram í fylgigögnum með frumvarpinu að ráðuneyti formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hæstv. fjármálaráðherra, telur frumvarpið jaðra við að brjóta stjórnarskrána. Hvernig dettur hæstv. sjávarútvegsráðherra í hug að koma með frumvarp (Forseti hringir.) sem er svo búið án þess að hafa kannað það fyrir fram?