139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:01]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að við séum þarna nokkuð góðir saman á línu um að það beri að styrkja sameiginlegt markaðs- og þróunarstarf sjávarútvegsins þannig að ekki séu bara einstök fyrirtæki þar ábyrg heldur megi gera það meira samræmt og það sé mikilvægur þáttur í því.

Varðandi það sem hv. þingmaður kom inn á um Hafrannsóknastofnun og ráðgjöf í þeim efnum vil ég bara segja að það er mjög mikilvægt að styrkja og efla störf Hafrannsóknastofnunar eins og það að við getum verið með okkar aflaráðgjöf á sem styrkustum vísindalegum grunni. Ég tel að stofnunin vinni mjög að því en það starf má styrkja og efla þannig að það verði enn þá öruggara.

Varðandi endanlega ákvörðun um aflamark á einstökum tegundum má svo sem vel vera að finna megi einhverjar aðrar leiðir til lokaákvörðunar. Eins og nú er gert er það á ábyrgð ráðherra (Forseti hringir.) en hann hefur leitað umsagna fjölmargra aðila áður en sú ákvörðun er tekin.