139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[17:06]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski hægt að nota það til samanburðar að fólk mundi aldrei sætta sig við að gera lóðaleigusamning til fimm ára um fasteign með mögulegum framlengingarrétti en þó þannig að heimildin falli niður eftir tíu til tólf ár. Slíkan lóðaleigusamning mundi enginn nota til þess að hefja byggingu fasteignar eða húss og þannig blasir þetta við mér.

Varðandi Evrópusambandið og tenginguna við þau mál — það kann að vera að hv. þingmaður hafi rétt fyrir sér með það að einhver tenging við aðildarumsóknina að Evrópusambandinu búi hér að baki. Kaldhæðni örlaganna er þó sú að Evrópusambandið er að fikra sig í átt til þess sem er samkvæmt gildandi lögum á Íslandi á sama tíma og ríkisstjórnin er að fara í hina áttina.

Annað atriði er líka mjög athyglisvert í því sambandi. Í frumvarpinu er lögð mjög mikil áhersla á fullt forræði og stjórn íslenskra yfirvalda á auðlindinni en aðild að Evrópusambandinu kallar á það að við veitum Evrópusambandinu mikil völd og áhrif í stjórn þessara mála.