144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

almenn hegningarlög.

470. mál
[23:45]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar í máli þessu er varðar breytingar á almennum hegningarlögum.

Með þessu frumvarpi er lagt til að lögfest verði sérstakt refsiákvæði sem taki til heimilisofbeldis vegna alvarleika þeirra brota. Markmiðið með þeirri tillögu væri að draga úr tíðni heimilisofbeldis og verja þolendur samhliða því að taka á vanda gerenda. Í öðru lagi er lagt til að lögreglu verði fengin heimild til að ákæra fyrir brot gegn nálgunarbanni en í núverandi löggjöf sæta slík brot aðeins ákæru að kröfu þess sem misgert var við.

Við fjölluðum um þessi tvö atriði í nefndinni og varðandi sérstaka refsiákvæðið þá leggjum við til að það ákvæði bíði. Fyrir nefndinni komu ábendingar um að textinn í ákvæðinu væri of almennur og það vantaði tilgreiningu á brotaákvæðum 233. gr. almennra hegningarlaga um hótanir sem reynir gjarnan á í heimilisofbeldismálum. Einnig var nefnt að í 194. gr. almennra hegningarlaga um nauðgun væri refsiramminn allt að 16 ár en í frumvarpinu er eingöngu lagt til að þyngri mörkin verði sex ár. Það komu fram ábendingar um að það þyrfti að skilgreina hverjir gætu talist nákomnir brotaþola.

Í nefndinni tökum við undir þessi sjónarmið og bendum á að innanríkisráðherra hefur meðal annars, að beiðni nefndarinnar og vegna umfjöllunar nefndarinnar um heimilisofbeldismál sl. tvö ár, falið refsiréttarnefnd að undirbúa breytingar á almennum hegningarlögum þannig að til komi sérstakt ákvæði um heimilisofbeldi svo að heimilisofbeldi verði skilgreint sem sérstakt brot líkt og gert er í Noregi. Við vorum mjög ánægð að heyra það núna á vordögum að vinna refsiréttarnefndarinnar er á lokametrunum þannig að við megum búast við því að frumvarp þessa efnis verði lagt fram á haustþingi. Vegna þess að við teljum að þetta verði að bíða þá leggjum við nú til í breytingartillögu að 1. gr. frumvarpsins falli brott.

Varðandi nálgunarbannið, sem fjallað er um í 2. gr., er alveg ljóst að þegar var verið að setja lögin þá virðist sem farist hafi fyrir að leggja til breytingar á ákvæði í 242. gr. Ákvæðið nær því ekki þeim markmiðum sem stefnt var að. Dómar hafa fallið þar sem nálgunarbann hefur verið fellt úr gildi á þeim grundvelli að þolandi féll frá kröfu um nálgunarbann og einnig þar sem kröfu lögreglu um nálgunarbann var hafnað. Í 2. gr. er fjallað um að sá sem brýtur gegn nálgunarbanni geti sætt ákæru af hálfu lögreglu en ekki aðeins af hálfu þess sem misgert var við. Það er breytingin sem hér er verið að fjalla um. Það á því að vera mat lögreglu hverju sinni hvort ákæra beri fyrir brot gegn nálgunarbanni. Nú er það þannig að einungis þolendur geta kært brot gegn nálgunarbanni. Niðurstaða okkar í nefndinni varð því sú að leggja til að 2. gr. yrði lögfest, enda teljum við mjög mikilvægt að berjast gegn heimilisofbeldi og viðurkenna alvarleika þeirra brota sem um ræðir í slíkum tilfellum.

Það kom fram í nefndinni að ástæður þess að ofbeldi er ekki kært er ekki endilega meðvirkni heldur fremur að þolendum er ókleift að kæra vegna hræðslu um frekara ofbeldi. Við teljum að verði ákvæðið samþykkt þá verði unnt að framfylgja úrræðum laganna þó að brotaþoli hafi ekki gert kröfu um ákæru og þannig sé verið að létta þrýstingi af þolendum og þar með verði unnt að tryggja vernd þolenda og þar með réttaröryggi þeirra.

Frú forseti. Við leggjum til að þetta mál verði samþykkt í þinginu með þeim breytingum sem hér hafa verið raktar. Undir þetta skrifa sú sem hér stendur og hv. þingmenn Páll Valur Björnsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Guðbjartur Hannesson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Hanna Birna Kristjánsdóttir.