139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

fangelsismál -- útsendingar sjónvarpsins.

[10:54]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það mun koma niðurstaða í þetta mál mjög fljótlega enda er það alveg rétt hjá hv. þingmanni að það þarf að fara að taka um þetta ákvörðun og koma þessum málum áfram. Það er mjög bagalegt að við skulum vera í þeirri stöðu að úrlausn á þessu sviði, sem hefur verið til umræðu líklega í ein 15–20 ár, skuli hafa dregist og svo óhönduglega tekist til að við séum með þessa stöðu í höndunum þegar aðstæður í ríkisfjármálum eru einhverjar þær erfiðustu nokkru sinni.

Þetta er ekkert óskaplega flókið mál. Þetta er framkvæmd upp á um 2 milljarða kr. og hv. þingmaður veit alveg hvað það þýðir ef við þurfum að taka það inn í fjárlög á þessum erfiðu árum. Þess vegna hefur það verið skoðað hvort hægt væri að fara aðrar leiðir í þeim efnum en niðurstaða liggur ekki fyrir. Málið er til umfjöllunar í ríkisstjórn akkúrat þessa daga þannig að ég geri ráð fyrir því að það styttist í niðurstöðu.