139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[14:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu er ætlunin að fara í hagfræðilega úttekt á því þegar búið er að setja þessi lög, þ.e. skjóta fyrst og spyrja svo. Það er sú regla.

Ég get ekki lagt mat á það en mér sýnist einboðið, og það liggur bara í hlutarins eðli, að takmörkun á framsali þýði minni arðsemi. Framsalið er stórlega takmarkað í dag, menn þurfa að veiða helminginn af því sem þeir hafa en engu að síður er arðsemi greinarinnar svo mikil að við getum staðið undir því dýra velferðarkerfi sem við höfum í dag. Það sem ég komst ekki inn á í ræðu minni, og vil þakka hv. þingmanni fyrir að gefa mér tækifæri til þess núna, er að það er hvergi til gott velferðarkerfi nema það sé sterkt atvinnulíf. Sterkt atvinnulíf þarf að geta staðið undir þeim kröfum sem velferðarkerfið gerir og stór hluti af íslensku atvinnulífi er einmitt sjávarútvegurinn. Ef við eyðileggjum arðsemina í sjávarútveginum eyðileggjum við um leið stóran hluta af arðsemi í íslensku atvinnulífi og þá mun íslenskt atvinnulíf ekki geta staðið undir eins metnaðarfullum lausnum í velferðarmálum og við stöndum í.

Ég fékk svar við því frá hæstv. velferðarráðherra að útgjöld ríkisins til málefna fatlaðs fólks hafa vaxið stórkostlega á síðustu 12–15 árum, þ.e. meðan Sjálfstæðisflokkurinn var við völd. Það má því segja að hann sé velferðarflokkur, frú forseti. Útgjöldin hafa vaxið á alla mælikvarða, mjög mikið, tvöfaldast, enda höfum við gert mjög mikið fyrir fatlað fólk og viljum gera það, en það er ekki hægt nema það sé mikil arðsemi í atvinnugreinunum. Þess vegna legg ég til, frú forseti, að sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar óski sérstaklega eftir umsögn frá Öryrkjabandalaginu og þeim sem sjá um málefni fatlaðra vegna þess að arðsemin er undirstaða þess að við getum gert eins vel við fatlaða og við viljum.