144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[14:03]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég er mjög hlynntur rannsóknum og könnunum í samgöngumálum til að skoða hvernig hægt er að gera þær umhverfisvænni, öruggari og skilvirkari. Margar leiðir eru til þess og þess vegna finnst mér þetta nú frekar afmarkað mál að hafa bara einn samgöngumáta undir í svona könnun um hvað sé hagkvæmast, öruggast og skilvirkast. Það sem verra er í þessu máli er að einkaaðilar hafa tekið að sér að kanna hagkvæmni lestar milli Suðurnesja og höfuðborgarinnar. Ætlar ríkið bara að fara að yfirtaka þá vinnu og greiða fyrir þann kostnað? Ég skil ekki svoleiðis forgangsröðun. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga að vinna málið betur áður en við förum að leggja í vinnu og kostnað. Þess vegna sit ég hjá í þessu máli en almennt fylgi ég öllum rannsóknum og könnunum í þessu.

Ég vil einnig benda á að með því að setja mislæg gatnamót á tíu til sextán stöðum á höfuðborgarsvæðinu er hægt að (Forseti hringir.) minnka útblástur bíla um 20–50% samkvæmt fyrstu könnunum. Þau kosta um 20 milljarða eða um helmingi minna en léttlestin kostar að minnsta kosti.