145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

fjármögnun samgöngukerfisins.

751. mál
[15:53]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég stóð hér og talaði fyrir samgönguáætlun, sem var reyndar lögð fram á undan ríkisfjármálaáætlun og er sverari en samgönguáætlun. Engu að síður er ég gagnrýnd mjög mikið fyrir að reka mikla sveltistefnu í samgöngumálum, allt með það.

Ég lít ekki þannig á varðandi samgönguáætlun og tölurnar sem þar birtast að það þurfi upp á punkt og prik að sjá þess stað í tölum fyrir hvert ár ríkisfjármálaáætlunar af því að það er svigrúm til staðar innan áranna. Ég sagði við þingið að mig langaði til að geta lagt fram áætlun sem talaði beint við ríkisfjármálaáætlunina. Það er augljóst að það var fullmikil bjartsýni af minni hálfu því að samgönguáætlun er að vissu leyti stefnumarkandi skjal. Og líka að það verður að vera þannig að hægt sé að bregðast við aukningu innan áranna. Þess vegna er svo mikilvægt að í samgönguáætluninni felist markmið sem eru viðráðanleg fyrir ríkissjóð að mæta.

Varðandi hinn þáttinn sem hv. þingmaður nefnir, og mér finnst reyndar afar mikilvægur, þá tökum við úr sambandi ákveðna tengingu sem er á milli háttalags, getum við kannski orðað það, og síðan fjármuna sem renna í samgöngukerfið þegar við tökum eldsneytisgjöldin af. Reyndar finnst mér bagalegt hversu mikið af því hefur þó farið í ríkissjóð sem átti að fara í samgöngukerfið. Það í mínum huga alveg skýrt að í vinnunni um framtíðarfjármögnun samgöngukerfisins er fráleitt annað en að taka mið af hagsmunum í umhverfismálum, bæði finnst mér það nauðsynlegt og skynsamlegt út frá hnattrænum sjónarmiðum og eins hér innan lands. Annað er að mínu áliti útilokað. Ég held að það komi aldrei til að menn líti ekki til þess þegar verið er að skipuleggja peninga í samgöngukerfið.