139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir liðlegheit því að ljóst er að vera þessara ráðherra mun að sjálfsögðu liðka fyrir umræðunni því að þeir munu þá væntanlega koma hingað og svara fyrir ýmis atriði, til að mynda þau atriði sem hafa verið sett fram af fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins.

En mér þykir það miður að í annars mjög góðum útvarpsþætti sem Sprengisandur á Bylgjunni er fáum við þingmenn að heyra viðhorf fjármálaráðherra en hann getur ekki verið í þingsal og rætt við þingið og þingmenn um nákvæmlega þetta efnisatriði sem og önnur atriði sem hefur borið á góma í tengslum við þessi mál.

Ég vil einnig vekja athygli hæstv. forseta á því að formaður annars af stóru stjórnarandstöðuflokkunum, formaður Framsóknarflokksins, er næstur á mælendaskrá. Ég hefði að sjálfsögðu kosið að hafa forsætisráðherra og fjármálaráðherra til að heyra mál hans og bregðast við eflaust mikilvægum atriðum sem koma fram í ræðu hans. Ég vek enn og aftur athygli á því að ekki einn vinstri grænn er á mælendaskrá.