139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég held að við getum náð saman um ýmislegt. Það er eiginlega mergurinn málsins. Það er óþarfi að hafa sjávarútvegsmálin í þeim mikla ágreiningi sem honum hefur verið steypt í með þessum frumvörpum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns af pólitískri útdeilingu á gæðum, slíkt hefur aldrei reynst vel. Ég er jafnframt sammála honum um að stærsta áhyggjuefnið við óhefta framsalið, sem var reyndar samþykkt af forustuliði ríkisstjórnarinnar á sínum tíma, er að það skapar svo mikla óvissu fyrir byggðarlögin, þau geta allt í einu lent í því að kvótinn sé framseldur eitthvert annað. Gallinn er sá að með þessu frumvarpi er sjávarútvegurinn allur og á öllum stöðum í allt of mikilli óvissu. Við þurfum því að leitast við að finna leiðir sem draga úr þeirri óvissu. Ég er þar af leiðandi hlynntur einhvers konar landfræðilegri tengingu.

En af því að hv. þingmaður nefndi að hann vildi markaðslegar aðferðir við útdeilingu úr öllum pottunum, ef ég skildi hann rétt, þá veltir maður því fyrir sér hvernig á því standi að taka eigi eitthvað til hliðar í þá potta frá því sem nú er. Þeir sem nú eru að veiða hafa keypt kvótann, skuldsett sig fyrir honum. Er eðlilegt að hluti af því sé tekinn af þeim sem hafa skuldsett sig fyrir kvótanum og selt til að mynda þeim sem eru búnir að selja sig út úr sjávarútveginum, hinum svokölluðu kvótagreifum sem hæstv. forsætisráðherra verður svo tíðrætt um? Er ekki ósanngirni í því að sá sem hefur skuldsett sig til að kaupa kvóta skuli missa hann, hann skuli aftur afhentur þeim sem voru búnir að selja sig út úr sjávarútveginum?