145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

skipting Reykjavíkurkjördæma.

761. mál
[16:28]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið sem mér fannst upplýsandi. Hæstv. ráðherra velti upp ýmsu í tengslum við þetta. Ég var meðvitaður um að við gætum ekki breytt þessu nema með því að breyta lögum. Svo sannarlega var ég líka meðvitaður um það þegar ákveðið var að fara í kosningar í haust að við mundum ekki ná að klára það verkefni.

Ég vildi hins vegar opna á þessa umræðu. Frá því að ég gerði það hef ég fengið mjög sterk viðbrögð. Fólki hefur fundist mjög rökrétt að breyta þessu eins og ég er að leggja hér til, í austur/vestur, af þeim ástæðum sem ég nefndi.

Hæstv. ráðherra fer yfir það að tæknilega sé þetta ekki vandamál ef vilji þingsins sé til þess að gera það. Ég vonast til að við ræðum það í þessum kosningum hvort það væri skynsamlegt að gera þessa hluti. Ég fer ekkert í grafgötur með að mér finnst, og ég held að það tengist ekki bara hagsmunum okkar Reykvíkinga heldur landsmanna allra, mikilvægt að samgöngur séu góðar í Reykjavíkurborg. Ég vildi gjarnan að það væri meiri umræða um það. Það eru líka mörg mál. Það er þannig í öllum sveitarfélögum landsins að landsmál og sveitarstjórnarmál, í okkar tilfelli borgarmál, tengjast oft og tíðum. Ég þekki það bara út af störfum mínum í gegnum tíðina að menn heykjast ekkert á því að taka umræðu um þau í tengslum við alþingiskosningar, sérstaklega í landsbyggðarkjördæmunum, og meira finnst mér í Suðvesturkjördæmi en í Reykjavík. Mér sýnist menn t.d. tala miklu opnara og ákveðnara um samgöngumál í því kjördæmi en í Reykjavík. Ég held að ein ástæðan sé sú að, eins og hæstv. ráðherra vísar í, þessu er meira að segja stundum breytt rétt fyrir kosningar. Auðvitað er ekki um marga einstaklinga að ræða en það sýnir kannski (Forseti hringir.) hvað skiptingin er skrýtin að það sé gert.