138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

Alþjóðahvalveiðiráðið.

[10:17]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Nú hefur um nokkurt skeið verið fjallað um það á vettvangi Alþjóðahvalveiðiráðsins hvort unnt verði að ná svokallaðri málamiðlun á milli þeirra sem aðhyllast hvalveiðar og þeirra sem vilja bann við hvalveiðum. Ísland hefur tekið þátt í þessari vinnu. Fulltrúi Íslands hefur átt sæti í samráðshópi 12 ríkja sem var falið það verkefni á vettvangi Alþjóðahvalveiðiráðsins að reyna að ná einhverri samstöðu um málamiðlun í ráðinu og á fundi ráðsins sem fram fer í Afríku í næstu viku.

Í Morgunblaðinu um helgina er fjallað um þetta mál sérstaklega og sagt að málamiðlunarviðræður séu sigldar í strand. Þar er m.a. vitnað í fulltrúa Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu og haft eftir honum, með leyfi forseta:

„Ljóst er að málamiðlunartillagan er óásættanleg fyrir Ísland í núverandi formi, enda gerir hún ráð fyrir því að milliríkjaviðskipti með hvalaafurðir verði bönnuð.“

Nú stefnir að vísu í að Japanir muni taka þátt í þessari málamiðlunartillögu og setja þar með stopp á milliríkjaviðskipti með hvalaafurðir þannig að það er augljóst að Japansmarkaður mun lokast gagnvart íslenskum hvalaafurðum. Í þessu viðtali við umræddan fulltrúa segir líka:

„Einu mundi gilda þótt fyrir lægi að málamiðlun fæli í sér aukna hvalavernd og minni hvalveiðar en ella. Mörg þessara samtaka eru öfgafull, stjórnast af peningalegum hagsmunum og þrífast á deilu áðurnefndra ríkja og ófriði innan ráðsins.“

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort þessi afstaða endurspegli sjónarmið íslenskra stjórnvalda, hvort þessi stefnumótun hafi verið rædd í ríkisstjórn, hvort utanríkisráðherra muni þekkjast boð formanns utanríkismálanefndar sem hér er sett fram um að koma fyrir nefndina (Forseti hringir.) og fjalla um þessi mál þar og hvort ráðherra hyggst beita sér fyrir því að Ísland leggi sitt af mörkum til málamiðlunar um hvalveiðar á vettvangi Alþjóðahvalveiðiráðsins.