138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[14:56]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum nú samgönguáætlun fyrir árið 2009–2012, framhald á síðari umr. Sá sem hér stendur og talar hefur áður tekið til máls um þessa áætlun og lokið lofsorði á hana þótt margt megi vitaskuld betur gera eins og á við um öll mannanna verk.

Samgöngumál eru í mínum huga spurning um jöfnuð, spurning um jafnaðarmennsku. Þessi mál eru spurning um byggðajöfnuð. Með öflugum samgöngum má bæta búsetuskilyrði um allt land og jafna lífsskilyrði fólks og gildir þá einu hvar fólk kýs að búa. Þetta er að mínu viti gríðarlega mikilvæg pólitík. Stjórnmálamenn og löggjafinn á að sjá til þess með gjörðum sínum að fólk eigi jafna möguleika um allt land burt séð frá því hvar það dvelur, býr og vinnur eða nemur. Byggðajöfnuður hlýtur að vera takmark hverrar samgönguáætlunar, enda er það svo að landsmenn borga að breyttu breytanda jafnmikið í skatta og skyldur hvar svo sem þeir búa á landinu. En spurningin er þá sú, frú forseti: Fá menn, þegar kemur að samgöngumálum, jafnmikið fyrir skattana sína? Fá Vestfirðingar sem búa á sunnanverðum Vestfjörðum jafnmikið fyrir skattana sína þegar kemur að því að flytja fólk og fisk og íbúar á suðvesturhorninu? Fá íbúar á Melrakkasléttu þar sem sjávarfalla gætir við þjóðveginn jafnmikið fyrir skattana sína og íbúar á Suðurlandi? Fá íbúar á sunnanverðum Austfjörðum þar sem manndrápsvegir eru í boði jafnmikið fyrir skattana sína og íbúar í uppsveitum Borgarfjarðar?

Þetta hljóta að vera meginspurningar, frú forseti, þegar kemur að samgönguáætlun — byggðajöfnuður. Ætlum við með samgönguáætlun, ætlum við með þeim verkum sem ríkið ákveður í vegagerð að jafna búsetuskilyrði á landinu? Svo hefur ekki verið.

Af því að hér hefur verið talað um kjördæmapot og þær meintu gjörðir landsbyggðarþingmanna, fer langsamlega mesta kjördæmapotið fram í sjálfri Reykjavík þar sem staðarval stjórnsýslunnar var ákveðið, við horfum t.d. á verk sem heitir tónlistarhúsið fara líklega nú þegar milljarð fram úr áætlun. Þar fer fram mesta kjördæmapotið og því þykir mér miður að íbúar úti á landi þurfi að heyra í sífellu að verið sé að potast í kjördæmum þeirra þegar kemur að lífsnauðsynlegum framkvæmdum hvað varðar öryggi á umferðaræðum landsins. Byggðajöfnuður er að mínu viti lykilatriði í samgönguáætlun og reyndar jöfnuður þegar kemur að allri pólitík.

Ég tek hins vegar undir þau orð hv. þm. Önnu Margrétar Guðjónsdóttur, sem ræddi áðan um vegáætlun, að við þyrftum að hugsa samgönguáætlun í stærra mengi en við höfum gert. Þar hugsa ég og horfi sérstaklega til sjálfstæðari byggðasvæða á Íslandi sem vonandi verður afleiðing af sóknaráætlun 20/20 sem nú er unnið að. Sjálfstæðari byggðasvæði, mun sjálfstæðari en Íslendingar búa við nú, hljóta að vera svar við mörgum þeim vandræðum sem nú er við að glíma í hinum dreifðustu byggðum, jafnt á Vestfjörðum sem nyrst á Norðausturlandi og á suðurfjörðum Austfjarða, og reyndar víða ef út í það er farið, sjálfstæðari byggðasvæði sem taka til sín beint það framlag sem úr er að spila hverju sinni, svo sem í vegagerð, í hafnarmálum og flugvallagerð, vegna þess að ég tel að heimamenn séu best til þess fallnir að velja peningunum stað þegar til framkvæmda kemur og framfara í vegamálum.

Sú samgönguáætlun sem hér er til umfjöllunar er mikið plagg og í fyrri ræðu minni um þetta mál fór ég í þaula í gegnum plaggið og þar er vitaskuld víða komið við. Vegir og bættar vegasamgöngur skipta alla Íslendinga gríðarlega miklu máli, jafnt íbúa höfuðborgarsvæðisins sem íbúa um allt land. Baráttunni um bættar vegasamgöngur má í einfaldleika sínum, frú forseti, kannski skipta í tvennt, þá sem vilja komast á milli og þá sem vilja komast hraðar á milli. Í sumum tilvikum, eins og t.d. á sunnanverðum Vestfjörðum, á norðausturhorninu, á suðurfjörðum Austurlands, komast menn varla á milli staða lungann úr árinu, jafnt með fjölskyldur sínar sem og fisk og sauðfénað sem þarf að flytja á milli. Fyrir vikið er atvinnulífið drepið í dróma. Fræg dæmi, ef svo má segja, eru þau frá suðurbyggðum Vestfjarða, norðausturhorninu og suðurfjörðunum á Austurlandi sem ég gat um áðan. Og svo einfalt dæmi sé tekið get ég nefnt Vopnafjörð en þar var alla síðustu öld boðið upp á kerruslóða ofan af heiðum niður til kauptúnsins og menn urðu að sætta sig við það hlutskipti vikum og mánuðum saman að komast ekki með fisk til og frá staðnum. Með öðrum orðum, samgönguáætlun Íslands gerði ráð fyrir því að sú byggð legðist í eyði en auðvitað börðust menn áfram á þeim stað svo sem eins og víðar á landinu.

Í mínum huga snúast bættari samgöngur um þrennt. Í fyrsta lagi auðvelda bættari samgöngur atvinnutengingu á milli svæða, gera stærri svæði að einu stóru vinnusvæði sem er gríðarlega mikilvægt og sér stað í samgönguáætlunum í Evrópu og reyndar í Bandaríkjunum. Þar nefni ég t.d. Kaliforníu þar sem áherslan hefur verið lögð á að dreifa atvinnutækifærum um það ágæta fylki, sem er reyndar fimmta stærsta hagkerfi í heimi, til þess að eyða umferðarhnútum, færa stóra háskóla, stór sjúkrahús, stór atvinnutæki og fyrirtæki út úr miðborgunum til að dreifa umferðinni, dreifa fólkinu og koma í veg fyrir „umferðarsultu“ sem svo er nefnd. Vinnutenging er gríðarlega mikilvægt markmið bættari samgangna.

Í annan stað nefni ég gríðarlega stórt hagsmunamál á Íslandi sem er aukinn flutningsjöfnuður, bættari og beinni og styttri vegalengdir hafa í för með sér gríðarlegan flutningsjöfnuð og við þurfum ríkulega á því að halda. Ég get nefnt sem dæmi að vegurinn um Arnkötludal, sem mér skilst að heiti núna Þröskuldar, hefur haft það í för með sér að íbúar á Ísafirði og þar um kring njóta nú allt að 12% lægra vöruverðs eftir að vegurinn var lagður um það svæði en áður en hann kom. Beinni vegir og betri vegtengingar milli byggðasvæða hafa því strax í för með sér þetta atriði, ríkulega lækkun á vöruverði, og skiptir það nú sköpum fyrir fjölskyldurnar í landinu. Í annan stað nefni ég því flutningsjöfnuð.

Í þriðja lagi nefni ég einn helsta vaxtarbrodd í atvinnulífi Íslendinga, ferðaþjónustuna. Betri vegir, beinni og sterkari tengsl á milli byggðasvæða auka mjög möguleikana á sókn ferðaþjónustunnar. Þar horfa menn til gríðarlegra hagsmuna á komandi árum. Sá sem hér stendur man eftir því að hafa skrifað frétt á byrjunarárum sínum í fréttamennsku, upp úr 1980, þegar erlendir ferðamenn hér á landi voru komnir yfir 100 þúsund, núna tæpum 30 árum síðar nálgast þeir eina milljón og sérfræðingar á þessu sviði segja að þá verði stutt í aðra milljón ferðamanna. Hvernig ætlum við að sinna þessum ferðamönnum í landinu? Með illa búnum vegum og lélegum tengingum á milli byggðasvæða? Nei, við hljótum að horfa til þessa mikilvæga atvinnuvegar þegar kemur að bættum samgöngum hér á landi. Frægt dæmi í þessa veru má nefna hinn gamalkunna Dettifossveg sem hélt varla rútum á veginum svo mjór var hann lengi fram eftir síðustu öld en var blessunarlega bættur undir lok aldarinnar, enda er þetta einhver vinsælasti ferðamannastaður landsins.

Við verðum, frú forseti, að hafa þessa þætti í huga. Ég var nýverið á leið um Mývatnssveit, þar er búið að koma upp afskaplega snotru þjónustuhúsi fyrir ferðamenn við Dimmuborgir. Vegarslóðinn þangað er hins vegar dæmi um vegalagningu sem stóðst kröfur miðrar síðustu aldar og er allur í hlykkjum, dæmigerður íslenskur ferðavegur. En Dimmuborgir sækja á örfáum vikum yfir sumartímann 300 þúsund ferðamenn, álíka margir og Íslendingar eru að tölu. Við verðum að horfa mjög til þessa þáttar þegar kemur að bættum samgöngum.

Frú forseti. Það nefndarálit sem nú liggur fyrir frá samgöngunefnd og ég hef skoðað fjallar ekki síst um Dýrafjarðargöng og undirbúning þeirra sem er hér settur á blað. Ég fagna því, alveg eins og ég fagnaði því að undirbúningur Norðfjarðarganga var settur á blað í samgönguáætlun sem var til umfjöllunar hér í síðasta mánuði. Dýrafjarðargöng og Norðfjarðargöng verða að komast á blað vegna þess að við ætlumst til þess að fólk um allt land fái svipað fyrir skattana sína. Þetta eru þau göng ásamt reyndar göngum undir Fjarðarheiði fyrir austan sem ég tel vera brýnustu verkefni á komandi árum þegar kemur að gangagerð og er til vitnis um reyndar samstöðu þingmanna úti á landi, alltént í Norðausturkjördæmi þar sem allir 10 þingmenn kjördæmisins lögðust á eitt um að greiða Norðfjarðargöngunum leið, en þar er að finna þjóðveg í 630 metra hæð og forneskjuleg jarðgöng með blindhæð áleiðis á fjórðungssjúkrahús svæðisins og hafa óléttar mæður oftar en einu sinni þurft að snúa við á þeirri vegslóðinni.

Hér er getið líka vegarins sem nefndur hefur verið leið 60, um Vestfirðina sunnanverða, um Barðaströndina. Ég tel að þverun fjarða þar sé afskaplega mikilvæg í atvinnulegu tilliti og til að auka líkur á byggð á því svæði og eins fyrir ferðaþjónustuna. Hvers vegna nefni ég þessa vegi, frú forseti, Vestfjarðaveg um sunnanverða Vestfirði, leið 60, Norðfjarðargöng og Fjarðarheiði, hvers vegna tek ég þetta beint út? Jú, það er út af þeirri pólitísku sannfæringu minni að ég vil byggðajöfnuð í landinu. Ég vil að landsmenn búi við álíka samgöngur hvar á landinu sem er og fái svipað fyrir skattana sína þegar kemur að því að keyra á milli hvort heldur er með fjölskylduna, fisk eða sauðfé eða til annarrar atvinnuuppbyggingar. Þetta er að mínu viti lykilatriði.

Ég dvel reyndar líka við það sem kemur fram á þriðju blaðsíðu nefndarálits frá samgöngunefnd þar sem talað er um viðhald á vegum. Hér er goldinn varhugi við því að slá af kröfum í þeim efnum. Ég get tekið undir það. Hér er sagt, með leyfi forseta:

„Þá telur nefndin rétt að taka fram að það sé ákveðið óréttlæti fólgið í því að þau verkefni í samgöngumálum sem flýtt var í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar árið 2007 og enn er ólokið skuli ekki vera í samgönguáætlun 2009–2012. Þannig hafa byggðir sem stefnt var að því að viðhalda og styrkja með flýtingu samgönguframkvæmda ekki einungis þurft að taka á sig samdráttinn sem almennt hefur orðið í íslensku efnahags- og atvinnulífi, heldur einnig samdrátt vegna skerðingar aflaheimilda í þorskveiði síðustu ár. Því er mikilvægt að þær framkvæmdir sem hér um ræðir verði í forgangi á 12 ára áætlun í samgöngumálum sem væntanleg er á næstu mánuðum.“

Ég vil ítreka að ég er þessu algerlega sammála en vek jafnframt athygli á þeim viðhaldsverkefnum sem boðuð voru og erfitt er að sjá að verði ekki sinnt því að það mun væntanlega hitta okkur illa fyrir þegar fram líða stundir. Margir vegir á landinu eru í því ásigkomulagi að ekki má fresta frekara viðhaldi á þeim og væri hægt að nefna fjöldamörg dæmi því til stuðnings. Nægir að nefna veginn um Skíðadal í Eyjafirði, nánar tiltekið í Svarfaðardal.

Frú forseti. Ég hef áður lokið ágætu lofsorði á samgönguáætlun til ársins 2012. Næsta verkefni okkar er að fjalla um samgönguáætlun til enn lengri tíma.

Mig langar, frú forseti, að nefna tvennt til viðbótar; uppbyggingu flugvalla hér á landi og uppbyggingu hafna, sem hvor tveggja er eðlilega partur af samgönguáætlun. Þar þurfum við, að mínu viti, að hugsa í byggðasvæðum og þar þurfum við jafnframt að hugsa í byggðajöfnuði. Ég hef oftar en einu sinni, og geri það aftur, nefnt þann fáránleika að Íslendingar flytja að ég best veit um 98%, tæplega 98% erlendra ferðamanna í gegnum eitt hlið sem er Leifsstöð. Ég held ég geti fullyrt að nánast engin önnur þjóð hagar sér með sambærilegum hætti. Menn lenda ekki í Róm á leiðinni á skíði á Ítalíu, menn lenda þar í Veróna. Í flestum þeim ríkjum sem við viljum bera okkur saman við eru vitaskuld notaðir fleiri flugvellir til að koma ferðafólki til landsins og það sem hlýtur að vera afskaplega umhverfisvænt er að dreifa ferðamönnum jafnar um landið. Þetta er lykilatriði þegar kemur að umhverfismálum ferðaþjónustunnar. Þess vegna legg ég ríka áherslu á að ekki verði aðeins staðar numið við frekari lengingu á Akureyrarflugvelli og frekari framkvæmdir á Egilsstaðaflugvelli, heldur muni hið opinbera og fara í markaðsátak til að koma þessum flugvöllum betur á kortið í alþjóðlegu flugvallasamstarfi til að koma fleiri ferðamönnum, jafnt að sumri sem vetri, á þessa staði til þess að dreifa ferðamönnum betur um landið.

Ég nefni líka þær gríðarlegu fjárfestingar sem hafa orðið í hafnamálum á Íslandi. Þær fjárfestingar eigum við að nota betur og nefni ég þar t.d. Mjóeyrarhöfn hvaðan við flytjum um þriðjung útflutningsvara okkar en hana má vitaskuld nota miklu betur og koma varningi þaðan um landið frekar en að flytja hann lengri spöl alla leið til Reykjavíkur. Væri hægt að tala í löngu máli um strandsiglingar til að auka þar á nýtingu fjárfestinga. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég sé að þú skammtar mér ekki lengri tíma og læt ég hér staðar numið.