138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

stjórn fiskveiða.

468. mál
[00:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur er meðflutningsmaður að þessu frumvarpi ásamt forsvarsmanni málsins og flutningsmanni, hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og Ásbirni Óttarssyni. Eins og fram kom í ræðu hv. þingmanns lýtur þetta frumvarp að réttlætisjöfnun sem við teljum að full þörf sé á að fara í. Fram kom hjá hv. þingmanni að um er að ræða útgerðir sem bera í raun uppi jöfnunaraðgerðir í dag, sem eru með aflaheimildir að meginhluta til í fjórum tegundum, þ.e. það eru fjórar tegundir sem bera uppi þessa jöfnun. Hugmyndin gengur út á að dreifa þessu jafnar yfir greinina, ef svo má segja, þannig að skerðingin verði öðruvísi en í dag, því að sjálfsögðu skerðast aflaheimildir hjá þeim útgerðum sem láta af hendi heimildir til þessara jöfnunaraðgerða.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. flutningsmanni að það sem hér er lagt til er að sjálfsögðu ekki óumdeilanlegt. Fyrirkomulag það sem hefur verið við lýði er eins og oft gerist búið að festa sig í sessi. Hins vegar er það að okkar mati eðlileg krafa að þarna verði farið í ákveðnar breytingar. Það að reikna þetta út frá heildarþorskígildum er að sjálfsögðu hugmyndafræði sem lögð er fram og í raun er gefið svigrúm til þeirra sem ekki hafa slíka heimild til að verða sér úti um hana til að uppfylla það sem hér er lagt fram.

Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að í ljósi þeirrar vinnu sem er í gangi varðandi hina svokölluðu sáttanefnd í sjávarútvegi og endurskoðun á fiskveiðistjórnarlögunum og -kerfinu er að sjálfsögðu ekki óeðlilegt að þessu sé vísað til ríkisstjórnarinnar, eins og kemur fram í áliti nefndarmanna. Það er hins vegar mikilvægt að við fylgjum því eftir að þessi þáttur verði ekki út undan í öllum þeim breytingum sem verið er að skoða nú varðandi sjávarútvegskerfið, að hann verði tekinn til alvarlegrar skoðunar líkt og aðrir þættir. Ég vona svo sannarlega að svo verði, hvort sem er í áðurnefndri nefnd eða á öðrum vettvangi. Það er sem sagt lagt til að þessu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og ég styð það að sjálfsögðu og vona að þetta mál fái eðlilega umfjöllun þar sem það á við.