139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

almannatryggingar o.fl.

763. mál
[16:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum. Þegar þetta er tekið saman er um að ræða samspil örorkugreiðslna, almannatrygginga og lífeyrissjóða.

Þetta mál á sér þá sögu að hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, sem nú er velferðarráðherra, og Landssamband lífeyrissjóða gerðu með sér samkomulag 30. desember 2010 á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og Landssambands lífeyrissjóða um víxlverkun örorkulífeyris, almannatrygginga og lífeyrissjóða annars vegar og hins vegar hækkun frítekjumarks ellilífeyrisþega í áföngum frá 3. desember 2010.

Eins og kom fram í máli hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur er ég á þessu máli með fyrirvara og ég ætla að gera örstutta grein fyrir honum. Það er ekki svo að skilja að það fólk sem fær þessa leiðréttingu eigi hana ekki skilið. Það er ágætt að rifja upp í umræðu eins og þeirri sem hér fer fram að þetta þýðir að sjálfsögðu gríðarlega mikil útgjöld fyrir ríkissjóð. (PHB: … skatta.) Hv. þm. Pétur Blöndal kallar fram í að þá verði væntanlega að hækka skattana. Þetta þýðir um 6,5 milljarða á þessu ári, annars vegar um 4,5 milljarða vegna almannatrygginganna og hins vegar 2 milljarða vegna atvinnuleysistrygginga.

Það er ágætt að rifja upp fjáraukalögin 2010 því að þessir hópar, sérstaklega aldraðir og öryrkjar, fengu mikinn skell þegar þessi hæstv. ríkisstjórn tók við. Fyrsta verk hennar var að flytja bandorm á vorþingi 2009 sem gerði það að verkum að það átti að skerða kjör þessara hópa, aldraðra og öryrkja, um 7 milljarða. Það var gert við mikil mótmæli frá þessum hópum, eðlilega. Fulltrúar bæði Landssambands eldri borgara og öryrkja sem hittu fjárlaganefnd og töluðu við okkur þar bentu okkur á að mjög hart væri gengið fram. Þá var áætlun um að þessir tveir hópar yrðu skertir um 7 milljarða. Reyndin varð hins vegar önnur og það kom í ljós að varnaðarorð fulltrúa þessara landssambanda, annars vegar eldri borgara og hins vegar öryrkja, þess góða fólks, við okkur reyndust rétt. Þegar fjáraukalög fyrir 2010 voru samþykkt kom í ljós að skerðingin var nefnilega 11 milljarðar en ekki 7. Það var verið að rétta af fjárhag ríkissjóðs um 4 milljarða vegna þessara þátta. Það var aðallega vegna þess að menn tekjutengdu allt sem kom að þeirri þjónustu, sérstaklega hjá öldruðum. Mér er minnisstæður einn hlutur, það var reiknaður út kostnaður fyrir aldraða við að vera á öldrunarstofnunum og hann fjórfaldaðist miðað við það sem var lagt upp með. Tekjuskerðingin á þessa hópa var alveg gríðarlega mikil. Það er ekki ósanngjarnt að eitthvað af því gangi til baka. Það var mjög hart gengið fram gegn öldruðum og öryrkjum. Eins og ég sagði áðan voru teknir 4 milljarðar umfram áætlun, það voru alls staðar skerðingar. Það er dapurlegt að það skyldi verða fyrsta verk hæstv. vinstri ríkisstjórnar í landinu að ganga svona fram.

Fyrirvari minn í þessu máli snýr líka að því að ég hef töluverðar áhyggjur af fjárhag ríkissjóðs og því hvernig við náum jöfnuði í ríkisfjármálum. Það var lagt af stað í upphafi árs 2011, þegar við samþykktum fjárlög fyrir það ár, að hallinn á ríkissjóði yrði 37 milljarðar. Hér erum við að setja 6,5 milljarða í þennan málaflokk. Ég veit ekki hvað við eigum eftir að setja mikið í Íbúðalánasjóð, hugsanlega 15–18 milljarða, og þá á eftir að taka tillit til fleiri þátta. Reyndar sló hæstv. fjármálaráðherra dálítið á það í umræðunni í morgun og gerði athugasemdir við það sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og hv. þm. Helgi Hjörvar, sem er formaður efnahags- og skattanefndar, sögðu í síðustu viku þegar fulltrúar Landsbankans kynntu tillögur til frekari úrbóta fyrir heimilin í landinu. Þeir sögðust telja alveg sjálfgefið að það væri til lítils að vera með ríkisábyrgð eða ríkisrekinn Íbúðalánasjóð ef hann gæti ekki gert það sama og ríkisbankinn. Hæstv. fjármálaráðherra gerði alvarlegar athugasemdir við yfirlýsingar þessara ágætu manna og sagði að ekki mætti líta á Íbúðalánasjóð með sama hætti og Landsbankann.

Síðan er hagvöxturinn ekki eins og við ætluðum að hann yrði. Það er margt fleira, við erum að klára samningana þannig að það eru mikil útgjöld í farvatninu. Ég hræðist það mjög mikið. Við erum búin að sleppa fullt af tækifærum til að auka tekjurnar, það er staðreynd, og ég hræðist mjög mikið að hallinn á ríkissjóði geti orðið mjög stór í lok árs, þ.e. að hann verði ekki 37 milljarðar heldur hugsanlega miklu meiri.

Ef maður fylgist eins vel með fjármálum og ríkissjóði og ég geri, við fáum mánaðarlegt yfirlit frá Fjársýslunni, sér maður að það er líka komið ákveðið launaskrið. Á fyrstu fjórum mánuðunum er það komið 1,5 milljarða fram yfir það sem gert var ráð fyrir. Þá var ekki búið að gera neina kjarasamninga eða neitt hjá ríkinu þannig að það er klárlega eitthvert launaskrið, eða maður hlýtur að halda það, hjá að minnsta kosti sumum opinberum starfsmönnum. Það er ekki gott ef það er hjá sumum hópum og ekki öðrum, sérstaklega í ljósi þess að það mistókst aldeilis þegar menn fóru í að beina tilmælum til stofnana um lækkun launa. Þær meðhöndluðu tilmælin mismunandi. Það er mjög dapurlegt þegar það gerist að sumir forstöðumenn stofnana lækka fólkið sitt í launum, eins og tilmæli ríkisstjórnarinnar og hæstv. forsætisráðherra voru, en aðrar stofnanir sinna því ekki. Það er ekki réttlátt gagnvart þeim sem þurfa að taka á sig launalækkun þegar starfsmenn í öðrum stofnunum þurfa ekki að gera það. Það er dæmi sem við verðum að læra af, enda gerir Ríkisendurskoðun alvarlegar athugasemdir við það hvernig staðið var að þessu.

Ég hræðist mjög að hallinn á ríkissjóði geti orðið miklu meiri en lagt var upp með. Um það eru allir sammála, a.m.k. flestir, að við náum varla að ganga lengra fram í skattahækkunum. Það er ekki að gerast sem átti að gerast og þar sem hagvöxturinn er látinn fara af stað gæti orðið dálítið erfitt að ná þessu saman. Þá gæti þurft að kalla á miklar skerðingar inn í árið 2012, ekki að menn ætli að fresta því að ná jöfnuði í ríkisfjármálum sem er að mörgu leyti ekki góð niðurstaða. Það er búið að klúðra svo mörgum tækifærum til þess að ná þessu í gang. Af þessu hef ég verulegar áhyggjur þó að ég ítreki það sem ég sagði áðan, að þeir hópar sem hér um ræðir, sérstaklega aldraðir og öryrkjar, eiga svo sannarlega skilið að fá bætur því að þá er búið að ganga mjög hart fram gagnvart þeim.

Síðan langar mig að nefna stuttlega, og ég held að það sé mikilvægt að við ræðum það í þinginu, að það fólk sem missir atvinnuna á samúð mína alla. Það er ekkert verra en að verða atvinnulaus þegar fólk vill vinna til að geta séð sér farborða. Þá er mjög mikilvægt að við náum af stað hvata til að vera í vinnu. Maður heyrir allt of mörg dæmi um annað og maður hefur séð staðreyndir um að fólk hafi meiri ráðstöfunartekjur á atvinnuleysisbótum. Þetta verðum við að forðast, við verðum að taka umræðu um það að fólk hafi meiri ráðstöfunartekjur við það að vera ekki að vinna því að þá þarf það ekki að keyra til vinnu, vera með börn á leikskólum og þar fram eftir götunum. Það er nokkuð sem við verðum að koma í veg fyrir. Maður hefur séð mörg dæmi, eins og ég sagði áðan, og staðreyndir hjá fólki sem maður hittir um að það hafi í raun minni ráðstöfunartekjur, sérstaklega eftir að eldsneyti hækkaði svona mikið. Það borgar sig að vera heima á atvinnuleysisbótum og það má ekki gerast.

Þegar maður ferðast um landið, eins og til dæmis í mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, sér maður allt of mörg dæmi um erlent vinnuafl í til dæmis sláturhúsum. Þetta er hefðbundin vinna og allir sem eru atvinnulausir þyrftu að sjá meiri möguleika í því að vinna en að sitja atvinnulausir heima. Við flytjum á sama tíma inn erlent vinnuafl til að vinna kannski í þrjá mánuði á haustin við þessi verk. Það er hægt að snúa þessari þróun við, við erum með langstærsta hlutann af erlendu vinnuafli en það gæti verið öfugt þar sem við þyrftum sérmenntað fólk til að sinna þeim störfum svo ég nefni þau sérstaklega. Þetta á líka sums staðar við um fiskvinnsluna, því miður, að fólk fæst ekki til að vinna við fiskvinnslu. Menn gátu hugsanlega leyft sér þetta í loftbóluhagkerfinu þegar allir gátu fengið vinnu, í aðdraganda hrunsins, en sá tími er því miður liðinn. Þetta þýðir bara að við verðum að skattleggja meira hina sem eru að vinna og þetta er nokkuð sem við verðum að þora að ræða í þingsölum. Ég ítreka þó að allt það fólk sem missir atvinnuna á samúð mína alla.

Af því að ég var með fyrirvara á þessu nefndaráliti vil ég að lokum vekja athygli á því að hann snýr að þessu: Ég hef miklar áhyggjur af ríkisfjármálum en tek hins vegar undir að mikilvægt er að að minnsta kosti aldraðir og öryrkjar fái einhverjar leiðréttingar því að þeir urðu harðast úti fyrst þegar farið var í skerðingar vorið 2009. Áætlunin var sú að skerða kjör þessara hópa um 7 milljarða en reyndin varð 11. Það eru staðreyndir sem við verðum að horfast í augu við þannig að ég fagna því að verið er að gera það. Ég ítreka áhyggjur mínar af ríkisfjármálum.