145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Stjórnmál og trúarbrögð eiga ekki samleið. Það er eitthvað sem ég hefði haldið að öll vestræn lýðræðisríki, og þótt víðar væri leitað, væru búin að átta sig á. Það er þannig að á Íslandi og víðar í heiminum á sér stað núna mikill trúarlegur ágreiningur af ýmsum ástæðum. Það má svo sem búast við slíkum ágreiningi af mannkyni sem hefur tilhneigingu til þess að rífast mjög heiftúðlega um sín hjartans mál og trúarmál eru, hvort sem okkur líkar betur eða verr, mjög persónuleg hverjum og einum, en í því felst líka punkturinn: Þau eiga ekki heima með stjórnmálum. Það er ekki eðlilegt að íslenska ríkið sé með sérstök trúarbrögð og sérstaka trúarstofnun sem ríkið ætlar að vernda og styrkja og styðja. Það er ekki eðlilegt fyrirkomulag þar sem jafnræði fyrir lögum er raunverulega virt, ekki bara eftir úrskurðum Hæstaréttar heldur raunverulega út frá gildi lýðræðissinna. Þetta er mikilvægt.

Núna á sér stað í íslensku samfélagi trúarlegur ágreiningur sem fær olíu á sinn eld með orðræðu úr íslenskum lögum eins og 5. gr. laga nr. 35/1970, um Kristnisjóð, sem kveður á um að sveitarfélögum sé skylt að gefa lóðir undir kirkjur. Út frá því verður ágreiningur um hvort það eigi við líka um moskur. Út frá því verður ágreiningur um túlkun 62. gr. stjórnarskrárinnar, nefnilega ríkiskirkjuákvæðisins, og í kjölfarið ágreiningur um túlkun 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnræði og sömuleiðis almenn jafnræðissjónarmið. Mér þykir algjörlega ótækt að sá hryllingur sem getur átt sér stað vegna trúarlegs ágreinings fái næringu úr íslenskum lögum og íslenskri stjórnarskrá. Mér þykir það ótækt, virðulegi forseti.

Við hreinlega verðum að aðskilja ríki og kirkju upp á framtíðina. Við verðum að gera það, ekki vegna þess að kristin trú eða trúarbrögð þjóðkirkjunnar séu svona eða hinsegin, heldur vegna þess að þetta er lýðveldi. (Forseti hringir.) Hér á að ríkja jafnræði fyrir lögum án tillits til trúarskoðana. Það er lýðræði, virðulegi forseti.


Efnisorð er vísa í ræðuna