138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[05:16]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Ég kem sérstaklega upp til að ræða breytingartillöguna sem kom fram við frumvarpið. Í framsögu minni um nefndarálitið fyrr í nótt gerði ég fyrst og fremst athugasemdir við málsmeðferðina. Ég er ekki að gagnrýna hana í sjálfu sér, mér finnst þetta vera tæknileg úrlausn á málefninu. Enn er ekki búið að móta pólitíska stefnu í öryggis- og varnarmálum þannig að ég ítreka þá skoðun mína að ég tel eðlilegast að móta þá stefnu fyrst og í framhaldi að taka ákvörðun um tæknilega úrlausn. Eftir það væri hægt að skipa verkefnisstjórn. Einnig þarf að marka stefnu um það hvaða ráðuneyti ætti að taka við málaflokknum þannig að við vissum hvað Varnarmálastofnun ætti að gera. Hvað er það sem við viljum að Varnarmálastofnun geri?

Það liggur alveg fyrir að menn eru ekki sammála um hlutverk Varnarmálastofnunar. Ég tel að það væri eðlilegt að fyrst yrði mörkuð ný heildarstefna, þverpólitísk vinna í öryggis- og varnarmálum. Síðan er hægt að fara í tæknilega úrlausn eins og liggur fyrir í frumvarpi hæstv. ráðherra.