139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

nefndarfundur á þingfundatíma.

[10:32]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað í upphafi þingfundar, þar sem allmargir hv. þingmenn hafa lýst því yfir að þeir ætli að ræða vinnubrögð í nefndum á eftir, til að vekja athygli á því að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd er enn að störfum þrátt fyrir að þingfundur sé hafinn. Samkvæmt mínum nýjustu fréttum er enn verið að taka á móti gestum og spyrja þá. Ég geri alvarlegar athugasemdir við þetta, frú forseti, og óska eftir því að annaðhvort verði upphafi þingfundar frestað þar til nefndin hefur lokið störfum eða hæstv. forseti sjái til þess að nefndarfundinum ljúki hið snarasta.