139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

tillaga um rannsókn á Icesave.

[14:00]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Töluvert hefur farið fyrir því á þessu þingi að hv. þingmenn hafa lagt fram tillögur um rannsóknir á ýmsum brýnum málum. Við sem það höfum gert gerðum það með því að gera breytingartillögur við þingsályktunartillögu sem þingmannanefnd undir forustu Atla Gíslasonar lagði fram á sínum tíma sem síðan varð grundvöllur fyrir þeirri ákæru sem nú er til meðferðar í Landsdómi. Þá var sagt að afgreiðsla þessara mála og þessara rannsóknarbeiðna skyldi bíða þar til heildarlög um rannsóknarnefndir hefði verið afgreidd. Nú ber svo við að þingið hefur verið að afgreiða frá sér ýmsar af þessum beiðnum um rannsóknarnefndir. Í dag veittum við afbrigði fyrir því að á dagskrá yrði tekið mál sem varðar rannsókn á sparisjóðunum. Ég styð það, en ég krefst þess hins vegar að tillaga um rannsókn á Icesave-málinu verði afgreidd úr hv. allsherjarnefnd, tekin hér á dagskrá og til atkvæðagreiðslu, eða að fram komi staðfesting frá hæstv. forseta Alþingis um að það verði gert fyrir þinglok. (Forseti hringir.) Mann er farið að gruna að valdhafar í landinu séu reiðubúnir að rannsaka allt annað en það sem snýr að þeim sjálfum.