139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom hingað upp til að spyrja út í tillögu fulltrúa sjálfstæðismanna í hv. efnahags- og skattanefnd, um hvaða leið væri heppilegast að fara til að afnema höftin. Þessir fulltrúar leggja til að ríki og Seðlabanki gefi út skuldabréf og bjóði það til kaups fyrir þá krónueigendur sem vilja skipta aflandskrónunum yfir í aðra gjaldmiðla. Þetta mun þýða að erlend skuldsetning þjóðarbúsins mun fara úr 240%, eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir í nýrri skýrslu sinni, upp í 270%. Það mun þýða á máli hagfræðinga að skuldastaða þjóðarbúsins sé ósjálfbær og jafnframt mun skuldsetning ríkissjóðs fara úr 100% af vergri landsframleiðslu í 130%. Meiri skuldsetning þýðir þá lægra (Forseti hringir.) lánshæfismat. Hafa hv. þingmenn íhugað þetta?