139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[15:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim sem hafa rætt þetta mál. Málið hefur fengið ágæta umfjöllun í iðnaðarnefnd, farið var ítarlega yfir athugasemdir og einnig vangaveltur sem upp komu í nefndinni.

Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir að nefna hér bréf sem þingmenn fengu frá ábúendum Helgafells en það lýsir í raun ágætlega þeirri stöðu sem mjög margir Íslendingar búa við í dag, þ.e. þeir sem búa nálægt vinsælum ferðamannastöðum þar sem bílastæði eða annað hefur orðið til við heimili þeirra.

Þetta frumvarp tekur því miður ekki á þeim vandamálum sem þessir aðilar eiga við að glíma og er það í rauninni miður. Við verðum hins vegar að horfast í augu við það að mikið er óunnið í uppbyggingu ferðamannastaða og einhvers staðar verður að byrja. Ég vil gjarnan líta þannig á að þetta sé einungis fyrsta skrefið og það skref lýtur þá að því að huga að öryggi og varðveislu náttúruperla á vinsælum stöðum í okkar fallega landi.

Mikilvægt er að halda því til haga og minna þingmenn á það, þó að áherslan sé með þessum hætti í frumvarpinu, að gleyma ekki einkaaðilum sem leggja mikið af mörkum, bæði með sjálfboðavinnu og hreinum fjárútlátum, við að standa vaktina þegar kemur að ferðamennskunni. Ég minnist mjög góðs bréfs sem Steinar Berg, ferðaþjónustuaðili í Fossatúni í Borgarfirði, sendi okkur þar sem hann fór mjög vandlega yfir það sem snýr að einkaaðilum. Einnig kom fulltrúi ferðamálasamtakanna til okkar.

Hins vegar er áherslan nokkuð skýr í þessu frumvarpi og því var mjög mikilvægt að nefndin kom sér saman um að segja það í lokaorðum nefndarálitsins að skilningur nefndarinnar sé sá að það sem innheimtist af þessum gjöldum í dag renni til uppbyggingar. Það er mikilvægt að við séum öll á sömu blaðsíðunni þegar kemur að því, að við ætlum ekki að fara að búa til skatt eða innheimta gjöld sem renna í ríkissjóð til reksturs á einhverjum stöðum eins og mátti lesa út úr frumvarpinu sem barst nefndinni. Þetta eru ekki það miklir fjármunir þegar kemur að uppbyggingunni að þetta sé til skiptanna í rekstur, vöktun eða eitthvað þess háttar þó að ég sé ekki á nokkurn hátt að gera lítið úr því. Eins og kom fram áðan takmarkast þetta við uppbyggingu og verndun náttúru og mannvirkja sem eru í opinberri eigu og náttúruverndarsvæði og hins vegar sömu hluta hvað varðar öryggi og verndun náttúru á ferðamannastöðum jafnt opinberra sem einkaaðila. Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga.

Herra forseti. Ég vona að þeir sem taka til máls um þetta mál séu mér sammála um að það er ekki ætlunin að ríkisvaldið fái hér tekjustofn til að setja í rekstur eða einhverja óskylda starfsemi heldur til uppbyggingar á ferðamannastöðum. Ég held að við verðum síðan að þróa þetta mál áfram og finna leiðir til að auka þennan gjaldstofn. Ég hafði á fyrri stigum ákveðnar efasemdir um þetta en ég held að við verðum að gera þessa tilraun í það minnsta. Vonandi verður hún ekki til þess að fæla neina ferðamenn frá, ég tel kannski ekki ástæðu til að óttast það, en við þurfum hins vegar að endurskoða þessa hluti eins og aðra og hugsanlega að breyta reglum og bæta í ef þörf er á.