139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við framlengingu gjaldeyrishafta, við sem héldum að við mundum búa í frjálsu lýðræðisríki. Það er einstaklega hlálegt að Samfylkingin skuli mæla fyrir frumvarpi um framlengingu gjaldeyrishafta til 31. desember 2015.

Mig langar að spyrja þingmanninn, vegna þess að ég veit að hann er mikill Evrópusambandssinni: Telur hann ekki augljóst að með því að framlengja gjaldeyrishöftin til 31. desember 2015 að sá gjörningur sem verið er að leggja fyrir Alþingi brjóti meginreglu EES-samningins um frjálst flæði fjármagns á milli landa?

Þingmönnum var gjarnan hótað þegar Icesave var til umræðu að það mál eitt mundi brjóta gegn EES-samningnum vegna ákvæða sem yllu því að EES-samningurinn færi í uppnám. Eina sem hefur sannast að brjóti gegn EES-samningnum eru gjaldeyrishöftin (Forseti hringir.) og nú leggur Samfylkingin til að þau verði framlengd.