139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að hér má létta ýmsu. Við höfum gert breytingar á málinu hér á milli umræðna til að taka fyrir það sem gekk kannski lengst í að takmarka athafnafrelsi einstaklinga, eins og skilaskylduna og sönnunarbyrðina og aðra slíka hluti. Feginn vildi ég að við gætum haft höftin til skemmri tíma en hér er lagt upp með og gætum brotist út úr þeim fyrr. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir fólk og fyrirtæki í landinu að það takist.

En er hv. þingmaður ekki sammála mér um að til þess að við getum gert okkur nægilega glögga mynd af gjaldeyrismarkaðnum, af þrýstingnum á krónuna og af þeim möguleikum sem við höfum til að brjótast út úr þessu, þurfum við að fá á næstu vikum og allra næstu mánuðum niðurstöður í útboð hjá Seðlabankanum á gjaldeyri þannig að við fáum upplýsingar um það (Forseti hringir.) á hvaða verði menn eru tilbúnir til að fara út og hversu margir það eru sem eru tilbúnir (Forseti hringir.) til að taka þátt í þessum uppboðum og hvort þau verði ekki mikilvægur hlekkur í því að afnema höftin.