139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:04]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona svo sannarlega að það séu bara 60 milljarðar á leið út úr hagkerfinu en ég efast um að svo sé. Ástæðan fyrir því að það voru ekki hærri upphæðir á uppboðsmarkaðnum er kannski sú að allir vissu að það yrðu bara 15 milljarðar í boði. Kannski vilja þessir aflandskrónueigendur bíða og sjá hvaða verð verður á uppboðsmarkaðnum áður en þeir fara sjálfir út með eignir sínar. Ég vonast til þess að fljótlega aftur verði haldinn uppboðsmarkaður þar sem jafnvel hærri upphæðir en 15 milljarðar verða boðnir upp.

Hvað varðar þessa skattlagningu held ég að aðalástæðan fyrir því að hún var ekki farin hafi verið andstaða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við fjölgengi eða fleira en eitt gengi. Ég tel að það hafi verið mikil mistök að fara eftir ráðleggingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og innleiða (Forseti hringir.) hér boð og bönn í staðinn fyrir skatta.