139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir þessi orð hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar. Ég held að efnahags- og skattanefnd ætti að taka þessi mál aftur til sín að lokinni þessari umræðu til að stöðva framgang þess frumvarps sem hér um ræðir og skipta um kúrs með einhverjum hætti. Ég legg það í hendur hinna ágætu fulltrúa hinna þriggja minni hluta í efnahags- og skattanefnd að fylgja því eftir og treysti jafnframt á það að hv. fulltrúar meiri hlutans í þeirri ágætu nefnd leggi sitt af mörkum til að finna lausnir í því sambandi. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að skipta um kúrs. Ég held að það sé fullkomið óráð að halda áfram með þetta frumvarp með þessum langa gildistíma og þeim víðtæku ákvæðum sem þarna eru inni og framlengja þessi víðtæku höft sem við höfum búið við. Ég held að það sé óráð þannig að ég tek undir það með hv. þingmanni að það er æskilegt að hv. nefnd taki þetta mál til sín til að breyta um kúrs, ekki til þess að gera einhverjar smávægilegar lagfæringar á þessu frumvarpi. Það hafa verið gerðar ákveðnar lagfæringar milli 1. og. 2. umr. en það er engan veginn nóg.

Ég ætla svo sem ekki að fara nánar út í það sem við vorum að gera hérna 2008, ég kom inn á það í ræðu minni. Varðandi spurningu hv. þingmanns um þessa gildistíma rifjuðum við náttúrlega upp að, ef ég man rétt, þegar í byrjun október 2008 var um það að ræða að Seðlabankinn gripi til bráðabirgðaráðstafana til að takmarka gjaldeyrisviðskipti. Síðan var frumvarpið samþykkt í lok nóvember og var þá ætlaður tveggja ára hámarksgildistími. Síðan einhvern tímann, sennilega vorið 2009, var gildistíminn færður (Forseti hringir.) fram til 31. ágúst þetta ár og staðreyndin er sú að sá tími sem hefur þarna (Forseti hringir.) áunnist hefur ekki nýst til þess að vinna að afnámi (Forseti hringir.) gjaldeyrishaftanna fram til þessa.