139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[22:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðu hans, þakka honum fyrir óbilandi trú á íslenskt þjóðlíf og íslenska þjóð, (Gripið fram í.) og íslenska æsku, já. Það er annað en hægt er að segja um þessa verklausu ríkisstjórn sem þjáist af mikilli ákvarðanafælni. Hér kemur hver stjórnarþingmaðurinn í pontu á fætur öðrum vælandi yfir því að þurfa að leggja fram þetta frumvarp og leggja til að hér verði gjaldeyrishöft til 31. desember 2015. Það er mjög merkilegt að verða vitni að því, sérstaklega í ljósi þess að hér er lagt til klárt brot gegn EES-samningnum varðandi frjálst flæði fjármagns á milli landa. Hingað til hefur ekki mátt hreyfa við neinu sem snertir Evrópusambandið eða EES-samninginn.

Hver er ástæðan fyrir þessu, hv. þm. Pétur H. Blöndal? Hvers vegna er þetta skref ekki tekið af þessari verklausu ríkisstjórn út í vorið og bjartsýnina og eitthvað gert í því að afnema höftin eins og reynt var í dag (Forseti hringir.) með uppboðsleiðinni í stað þess að leggjast undir feld og halda áfram kyrrstöðunni?