139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[23:19]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, ég held að það væri skynsamlegt að fá hingað fleiri hæstv. ráðherra til að taka þátt í þessari mikilvægu umræðu, en ekki síður væri gott að vita hver staðan er varðandi tilhögun umræðunnar. Við í hv. viðskiptanefnd munum hittast klukkan 8.30 og ræða þar mjög athyglisvert mál, málefni Byrs, og það er ekki verra að vera búinn að skoða þau mál aðeins fyrir fundinn. Nú kynni einhver að segja: Af hverju er hv. þingmaður að spyrja að þessu núna þegar klukkan er 20 mínútur yfir 11 en ég vakti nú athygli á því á líklega þarsíðasta þingi að þá voru vökulögin, sem eru frá 1921 ef ég man rétt — (Gripið fram í: 1922.) 1922, þverbrotin en þau gerðu ráð fyrir að í það minnsta sjómenn fengju fjögurra eða sex tíma svefn, en hæstv. ríkisstjórn (HHj: … bara Evrópu…) sá ekki ástæðu til þess að (Forseti hringir.) halda vökulögin, hvað þá tilskipanir Evrópusambandsins eins og hv. þm. Helgi Hjörvar kallar hér fram í.