139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[23:26]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð að upplýsa það að ég er ekki almennilega ánægður með fundarstjórn hæstv. forseta núna. Ég beindi þeirri beiðni til forseta, sem á að vera forseti allra þingmanna hér, að forustumenn ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, sýndu umræðunni þá virðingu að vera við hana. Við erum að tala um eitt stærsta efnahagslega mál sem hefur komið á borð okkar þingmanna á þessu ári, og ætla leiðtogar stjórnarflokkanna bara að sitja hjá? Og ætlar frú forseti ekki að verða við þeirri beiðni minni að þeim verði gert viðvart um að nærveru þeirra sé óskað hér við þessa umræðu? Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því.

Af því að menn hældu forsetum þingsins fyrir greinargóð svör vil ég upplýsa að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, sem er í forsætisnefnd þingsins, svarar ætíð fyrirspurnum þingmanna þegar þeim er beint til forseta (Forseti hringir.) þegar hún er á forsetastóli svo (Forseti hringir.) ég haldi því til haga í þessari umræðu, frú forseti. (Gripið fram í.)