138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[11:32]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki farið leynt að unnið er að hagræðingu í stjórnkerfinu, m.a. með því að leita leiða til að sameina stofnanir, til þess að þurfa ekki að skera eins mikið niður í útgjöldum t.d. sem snúa að velferðarmálum. Opinberlega hefur verið greint frá ýmissi af þessari sameiningu vegna þess að það hvílir engin leynd yfir henni, eins og sameiningu skattumdæma, sameiningu Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlits, sameiningu stofnana í umhverfisráðuneytinu, sameiningu stjórnsýsluverkefna á sviði samgöngumála, sameiningu slysarannsóknastofa, sameiningu Keflavíkurflugvallar ohf. og Flugstoða, sameiningu sýslumannsembætta, sameiningu lögregluembætta, sameiningu héraðsdómstóla, sameiningu á starfsemi Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands. Það hefur engin leynd hvílt yfir þessu. En raunverulega er hægt að afgreiða málið sérstaklega varðandi ráðuneytin sem slík og styrkja þau samhliða því að verið er að undirbúa hagræðingu (Forseti hringir.) og sameiningu ýmissa stofnana í stjórnkerfinu.