138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:35]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir að rifja upp flokkssamþykktir mínar. Ég ætti kannski að rifja upp flokkssamþykktir Framsóknar um að fækka ráðuneytum og stofna atvinnuvegaráðuneyti, ef við viljum fara í þá umræðu.

Það er alveg rétt að fjármálaráðuneytið hefur verið að byggja upp þekkingu á því hvernig þarf að standa að málum til að sameining stofnana skili því sem ætlast er til. Þar hefur byggst upp mikil sérþekking og á henni er byggt í undirbúningi þessa máls. Eðli málsins samkvæmt er fjármálaráðuneytið sú eining stjórnsýslu okkar þar sem mest sérþekking og fagþekking er samankomin á því hvernig þarf að standa að málum í þeim efnum ef vel á til að takast.

Ég hygg að uppskeran á undanförnum árum hafi oft verið of rýr vegna þess að menn settu sér ekki skýr markmið fyrir fram í þeim efnum, menn undirbjuggu hlutina ekki á réttan hátt. Ég fullyrði þvert á það sem ég hef heyrt í þessari umræðu að mikill og vandaður undirbúningur sé þegar til staðar og liggur hann að baki því frumvarpi sem hér er komið fram. En það er líka vinna eftir sem snýr að því að ræða við starfsfólkið og í vissum tilvikum draga upp endanleg landamæri milli verkefna og því er heldur ekki haldið fram hér að þetta sé (Forseti hringir.) endanlegur sannleikur eða eina mögulega leiðin sem fær er. Ég geri það ekki, (Forseti hringir.) en þetta eru að mínu mati góðar tillögur og vel ígrundaðar.