138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:11]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Með því frumvarpi sem við ræðum hér er lagt til að ráðuneytum í Stjórnarráði Íslands verði fækkað og töluverð breyting og uppskipting verði á fyrirkomulagi Stjórnarráðsins eins og við þekkjum það í dag. Ég vil í upphafi máls míns segja að ég er alls ekki andsnúinn því að ráðuneytum sé fækkað og að ríkið spari í rekstri sínum, síður en svo. Ég hef margoft talað fyrir þeim sjónarmiðum og það hefur Sjálfstæðisflokkurinn og þingmenn hans margoft gert, bæði hér og á öðrum vettvangi. En ég verð að segja það að ég get hvorki fallist á þá leið sem hér stendur til að fara né get ég samþykkt þau vinnubrögð sem ríkisstjórnin viðhefur í málinu.

Það er engin samstaða um málið, hvorki innan þings né utan. Í umræðunni hefur verið farið yfir það að hagsmunaaðilar víðs vegar í samfélaginu lýsa furðu sinni yfir því að málið sé komið fram í þeim búningi sem við verðum vitni að. Stjórnarandstaðan eða að minnsta kosti stærstur hluti hennar hefur lýst andstöðu sinni við frumvarpið og það er ekki einu sinni samstaða um málið í ríkisstjórninni sjálfri eða í stjórnarflokkunum. Það hefur komið fram opinberlega að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, styður ekki frumvarpið. Í ljósi þess veltir maður því eðlilega fyrir sér hvort frumvarpið sé í rauninni stjórnarfrumvarp. Sú regla hefur verið viðhöfð að þegar ríkisstjórnin flytur mál og leggur fram frumvörp og mælir fyrir þeim þá standi ríkisstjórnin heil á bak við þann málatilbúnað en því er ekki að heilsa í þessu máli.

Við höfum líka orðið vitni að því að einstakir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna eru andsnúnir málinu og lögðust beinlínis gegn því að það yrði lagt fram til umræðu á þinginu. Það kom berlega í ljós í heiðarlegri ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar sem fór yfir sjónarmið sín og hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar og hæstv. ráðherra Jóns Bjarnasonar. Þetta frumvarp og sú ósamstaða sem um það ríkir gerir það að verkum að maður getur ekki annað en komist að þeirri niðurstöðu að það sé mikil ósamstaða innan ríkisstjórnarinnar og það ekki í fyrsta skipti.

Það er ekki langt síðan hv. þm. Ögmundur Jónasson hrökklaðist úr ríkisstjórninni vegna afstöðu sinnar til Icesave-málsins og heiðarlegrar og málefnalegrar baráttu gegn því að það mál næði fram að ganga. Það læðist óneitanlega að manni sá grunur að í þessu frumvarpi sé vegið að öðrum hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni. Nú sé komið að því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra taki pokann sinn að kröfu hæstv. forsætisráðherra og í þökk hæstv. fjármálaráðherra vegna andstöðu sinnar við að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Það er illa komið fyrir ríkisstjórn sem þannig er háttað um og það er illa komið fyrir forustu slíkrar ríkisstjórnar sem kemur þannig fram við menn sem berjast með heiðarlegum hætti fyrir sjónarmiðum sem þeir telja að séu rétt og mikilvæg fyrir landið og þjóðina sem þeir starfa fyrir.

Ég hef undir höndum flokksráðssamþykkt Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs frá fundi flokksins 15.–16. janúar 2010 sem sýnir viðhorf grasrótarinnar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði til málsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Akureyri 15.–16. janúar 2010, skorar á stjórn og þingflokk VG að áform um endurskipulagningu Stjórnarráðsins verði endurskoðuð í ljósi breyttra aðstæðna og yfirfarin áður en frekari skref eru tekin.“

Á þetta hlustar hæstv. fjármálaráðherra ekki, heldur leggur fram frumvarpið í trássi við skoðanir flokksfélaga sinna og berst hér fyrir því. Í greinargerð með samþykkt flokksráðsfundar Vinstri grænna segir, með leyfi forseta:

„Varhugavert er að draga úr vægi ofangreindra atvinnugreina innan stjórnsýslunnar á sama tíma og þjóðin þarf öðru fremur að treysta á þessa málaflokka í þeim hremmingum sem nú ganga yfir.“

Þeim finnst enn fremur slík aðferð til þess fallin að veikja samningsstöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Með fyrirhugaðri sameiningu hverfur sú sérstaða sem þessir málaflokkar fæðuöflunar og fæðuöryggis hafa haft innan stjórnsýslu landsins. Fjölmargir aðilar hafa lýst sig mótfallna því að leggja niður ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar, hagsmunaaðilar til lands og sjávar, sveitarstjórnir á landsbyggðinni og flokksfélög Vinstri grænna.

Engu að síður kýs formaður Vinstri grænna, hæstv. fjármálaráðherra, að leggja málið fram í trássi við skoðanir flokksfélaga sinna og kemur þeim skilaboðum til þeirra sem hafa málefnalegar athugasemdir við frumvarpið að þeir hafi gerst sekir um að vera með eitthvert óttalegt puð. Það er sú virðing sem hæstv. fjármálaráðherra sýnir málefnalegum sjónarmiðum þeirra sem ekki eru reiðubúnir til að fallast á sjónarmið sem í frumvarpinu felast. Í flokksráðssamþykkt Vinstri grænna segir einnig, með leyfi forseta:

„Einnig er hægt að benda á að ekki er ásættanlegt að skipan Stjórnarráðs Íslands fari eftir meirihlutavilja þeirra flokka sem við völd eru hverju sinni. Þær breytingar sem gerðar voru á Stjórnarráðinu þegar stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók við völdum árið 2007 og vinnubrögð stjórnarmeirihlutans í þeim málum geta ekki verið okkur til eftirbreytni, okkar flokki sem öðru fremur kennir sig við lýðræði, bætta stjórnsýslu og aukið þingræði. Það ætti því ekki að dyljast neinum hversu mikilvægt það er að ná samstöðu allra flokka um afgerandi breytingar á Stjórnarráðinu og stjórnarskrá.“

Þrátt fyrir þessa samþykkt flokksráðs Vinstri grænna er farið gegn öllum þeim sjónarmiðum sem fram koma í henni og það vekur óneitanlega furðu að formaður flokksins skuli vera þar í fararbroddi og fara gegn samþykktum eigin flokks og eigin félaga.

Ef ég hefði lengri ræðutíma til að fara yfir málið mundi ég fara nánar yfir þessa samþykkt flokksráðs Vinstri grænna. Það er vísað til sjónarmiða sem fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, hafði uppi á árinu 1958 til að undirstrika þau sjónarmið sem hér hafa fram komið og ég hef reifað. Það er jafnframt vísað til þess sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði í umræðum á Alþingi 4. júní árið 2007 þegar hann sagði, með leyfi forseta:

„En til þess að endurskipulagning af þessu tagi geti tekist vel er alger forsenda að vandað sé til undirbúnings og víðtæk pólitísk samstaða verði um þær breytingar.“

Ég held að allir sem hafa hlustað á umræðuna sem hér hefur farið fram og hlustað á það hver sjónarmið innan ríkisstjórnarflokkanna sjálfra eru hljóti að sjá að þegar til stykkisins kemur hafa forustumenn og þeir sem eru leiðandi í flokki Vinstri grænna engan áhuga á því að fylgja eigin orðum. Í því felst hvorki heiðarleg stefnumörkun gagnvart eigin flokksmönnum né stefnufesta gagnvart því sem þeir hafa áður sagt.

Ég ætla að láta þetta nægja og vísa ekki í fleiri hv. þingmenn Vinstri grænna en bendi á að í flokksráðssamþykktinni er jafnframt vísað til ræðu sem formaður Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon, hæstv. fjármálaráðherra, flutti 11. desember 2007 sem er í algerri andstöðu við þau sjónarmið sem hann hafði uppi hér fyrr í umræðunni.

Því miður hefur ríkisstjórnin kosið að fara fram með málið í ágreiningi. Hún hefur kosið það þrátt fyrir öll hin fögru fyrirheit um mikilvægi þess að haft sé samráð við aðila úti í samfélaginu og aðila innan þings um niðurstöðu í mikilvægum málum. Þrátt fyrir það hefur hún kosið að hafa ekki slíkt samráð. Það sést best af greinargerðinni sem fylgir með frumvarpinu að samráðið á að fara fram eftir á. Það er út af fyrir sig ný útgáfa af þeim samræðustjórnmálum sem Samfylkingin hefur predikað á Alþingi svo árum skiptir og nú virðast sumir hv. þingmenn innan vébanda Vinstri grænna taka undir þau sjónarmið. En af hverju í ósköpunum reyndi ríkisstjórnin ekki að ná sátt um málið fyrir fram í stað þess að ala endalaust á óeiningu og deilum? Ég fæ ekki séð að það sé nein ástæða til að efna til þeirra átaka sem um málið mun verða í framtíðinni. Ég held að með því að leggja málið fram í þeim búningi sem það er sé búið að færa átakastjórnmálin, sem þeir sem standa að frumvarpinu hafa gagnrýnt hvað hæst, á hærra stig en við höfum nokkurn tíma séð, að minnsta kosti ekki oft. Það finnst mér miður vegna þess að ég held að við séum öll sammála um að það megi gera breytingar á Stjórnarráðinu og mikilvægt sé að draga saman í rekstri ríkisins. En við þurfum að koma okkur saman um leiðirnar sem skynsamlegt er að fara í því.

Efnislega vil ég nefna tvennt um frumvarpið. Ég geri miklar athugasemdir við fyrirkomulagið sem mælt er fyrir um varðandi skipan nýs atvinnuvegaráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Ég fæ ekki betur séð en að með því fyrirkomulagi sé verið að brjóta sjávarútvegsráðuneytið í tvennt og það á tímum þegar mikilvægi sjávarútvegsins hefur aldrei verið meira, bæði fyrir þjóðarbúið og líka vegna þeirra hagsmuna sem sjávarútvegsmálin hafa í för með sér fyrir íslenskt þjóðarbú, ég tala nú ekki um þegar hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Við þær aðstæður skiptir öllu máli að innan Stjórnarráðsins sé sterkt ráðuneyti sjávarútvegsmála sem tekur til varna gegn kröfum Evrópusambandsins um að taka yfir öll sjávarútvegsmál og stjórn fiskveiða.

Í annan stað vil ég nefna hið nýja innanríkisráðuneyti sem frumvarpið mælir fyrir um. Þar á að grauta saman samgöngu- og sveitarstjórnarmálum og málum tengdum dómstólum og réttarkerfinu. Þetta er einhver furðulegasta blanda sem ég hef séð. Ég átti samræður við hæstv. dómsmálaráðherra í gær um þá sprengingu sem er yfirvofandi í dómskerfinu, sprengingu í málafjölda sem dómstólarnir munu ekki ráða við. Það liggur fyrir að dómsmálum vegna krafna á hendur bönkunum sem skilanefndir eru að eiga við mun ekki fjölga um þúsundir heldur um tugi þúsunda. Það er ljóst að réttarkerfi okkar mun ekki ráða við þann aukna málafjölda. Það stefnir í neyðarástand og þá leggur hæstv. ríkisstjórn til að dómsmálum og málefnum réttarkerfisins sé skipað með sveitarstjórnar- og fjarskiptamálum þegar menn þurfa að standa vörð um réttarkerfið.

Virðulegi forseti. Það má margt fleira um frumvarpið segja. En ég legg áherslu á að vilji menn ná fram breytingum á Stjórnarráði Íslands á að gera það í sátt og af meira hyggjuviti en þetta frumvarp mælir fyrir um.