138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

skipun nefndar sem kanni forsendur verðtryggingar á Íslandi.

676. mál
[16:49]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að lýsa ánægju minni yfir því að við séum búin að ná samstöðu um að flytja og samþykkja þessa tillögu um skipun nefndar sem kanni forsendur verðtryggingar á Íslandi. Það er ég tel vera hvað merkilegast eða mikilvægast í þeim texta sem kemur frá viðskiptanefnd er að nefndinni er falið að skoða á heildstæðan hátt áhrif verðtryggingar á lántakendur og lánveitendur, sem og áhrif hennar á virkni hagstjórnar á efnahagslegan stöðugleika almennt. Nefndin á að leggja fram tillögur til að draga úr umfangi verðtryggingar án þess að fjármálastöðugleika sé ógnað. Þannig að það er mjög skýrt að nefndinni er falið að leita upplýsinga, fara í rannsóknir og leggja fram skýrar tillögur um það hvernig við getum dregið úr umfangi verðtryggingar í íslensku samfélagi, en þó á sama máta án þess að við ógnum fjármálastöðugleikanum.

Í nefndinni munu eiga sæti fulltrúar allra flokka á þingi, auk eins fulltrúa efnahags- og viðskiptaráðuneytisins og eins fulltrúa fjármálaráðuneytisins. Ég fagna því virkilega að þetta sé komið fram og vænti mikils af vinnu þessarar nefndar. Það hefur verið samkomulag innan Framsóknarflokksins að ég muni taka sæti í nefndinni fyrir hönd flokksins. Þetta byggist á því frumvarpi sem allur þingflokkur framsóknarmanna lagði fram og fyrsta greinin var að reyna að stefna að því að setja 4% þak á verðtrygginguna. Síðan vorum við líka með hugmyndir um að takmarka hvað ríkið og undirstofnanir þess gætu gefið út af verðtryggðum skuldabréfum. Aðrir flokkar hafa líka lagt fram hugmyndir um það hvernig sé hægt að draga úr umfanginu. Ég tel mjög mikilvægt að skoða það en einnig að við séum opin fyrir því að leita nýrra leiða.

Að lokum í ljósi þess að akkúrat núna, bara fyrir fimm mínútum síðan, bárust fréttir þess efnis að Hæstiréttur hefði dæmt myntkörfulánin ólögleg má vænta þess að ríkisstjórnin bregðist við á næstu mínútum. Með þessari þingsályktunartillögu er náttúrlega skýrt að það er vilji Alþingis að reyna að draga úr umfangi verðtryggingarinnar, en ekki að fjölga þeim lánum og þeim lánveitendum sem eru með verðtryggð lán. Þannig að það er grundvallarforsenda að ríkisstjórnin hafi í huga sína eigin stefnuyfirlýsingu þegar hún tekur ákvörðun um það hvernig eigi að bregðast við þessum dómi.

Ég ætlaði nú ekki að hafa þetta lengra að sinni og bara hlakka mikið til að nefndin skili tillögum fyrir lok árs 2010 og í framhaldi af því verður vonandi farið í alvörulagabreytingar og alvörubreytingar á reglugerðinni til þess að draga úr umfangi verðtryggingar.