139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

fundarstjórn.

[12:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í morgun kaus meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að rífa frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, sem þar var til meðhöndlunar, úr höndum nefndarinnar umræðulaust. Þegar við komum til fundarins í morgun kl. 8 beið okkar þykkt skjal, nefndarálit með breytingartillögum, sem kynnt var að væri sett fram í nafni meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Það var augljóst að þetta mál hafði verið undirbúið að minnsta kosti síðasta sólarhringinn. Á sama tíma var verið að ræða um það að kannski væri hægt að ná einhverri niðurstöðu í þessum efnum. Það er greinilegt á vinnubrögðum meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að engin heilindi voru þar á bak við.

Málið var rifið úr höndum nefndarinnar þrátt fyrir að engin efnisleg umræða hefði farið fram um það á vettvangi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Við höfðum fengið fjölda gesta. Allir voru sammála um að frumvarpið væri ekki hægt að samþykkja, að minnsta kosti ekki óbreytt. Alþýðusamband Íslands lagði til að það yrði lagt til hliðar (Forseti hringir.) og tekið til við nýja vinnu. Meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefur kosið að hafa öll þau orð að engu og unnið með þessum (Forseti hringir.) hætti, þessum ólýðræðislega hætti, og ég mótmæli því héðan úr þessum ræðustóli.