139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

fundarstjórn.

[12:36]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson var að lýsa hér áðan — hvernig þetta mál var afgreitt úr sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd í morgun, mál sem í gær virtist einhver vilji til að ná samkomulagi um, sem hefði þá jafnframt orðið hluti af samkomulagi um að ljúka dagskrá fyrir þingfrestun, fyrir sumarfrí — vil ég beina því til herra forseta að athuga hvernig þingfrestun verður háttað, hvernig á að afgreiða þetta mikilvæga mál sem varðar mikilvægustu atvinnugrein okkar Íslendinga.

Svo þarf, herra forseti, að fara yfir vinnubrögð og vinnulag í þessum málum. Það er, eins og ég sagði í gær, ólíðandi að slík vinnubrögð séu viðhöfð eins og verið hefur í þessu máli og reyndar mörgum öðrum. Það verður að fara að endurskoða þetta með tilliti til þess (Forseti hringir.) að við vinnum vandaða vinnu og skilum einhverjum árangri en hættum pólitískum öfgaupphlaupum sem eru hér (Forseti hringir.) daginn út og daginn inn.